(+354) 591 0100

Símanúmer

sik@si.is

Netfang

Fréttir

Stjórn SÍK harmar ákvörðun matvælaráðherra

Í framhaldi af ákvörðun matvælaráðherra um að heimila hvalveiðar á ný vill stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda koma eftirfarandi á framfæri:  

 

Stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) harmar þá ákvörðun matvælaráðherra að heimila hvalveiðar á ný. Stjórnin lýsir yfir áhyggjum af afleiðingum ákvörðunarinnar og þeim orðsporshnekki sem Ísland hefur og mun verða fyrir haldi veiðarnar áfram. Nú þegar hefur fjöldi erlendra framleiðenda, leikara og umhverfissinna undirritað bréf þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að banna hvalveiðar. Íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er um þessar mundir að festa sig í sessi sem ákjósanlegur áfangastaður fyrir hin ýmsu framleiðsluverkefni. Í þessu samhengi má nefna að velta kvikmyndaiðnaðar nam um 25 milljörðum á síðast liðnu ári, þar af er stór hluti útflutningstekjur. Afstaða alþjóðlega kvikmyndaiðnaðarins til hvalveiða vegur þungt hvort uppbygging síðustu ára haldi áfram eða að Ísland verði sniðgengið. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikinn metnað í að efla samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar. Stjórn SÍK hvetur íslensk stjórnvöld til að horfa til heildarhagsmuna íslensks samfélags og vonast eftir skjótri samstöðu flokka um hvalveiðibann.  

Ný stjórn kjörin á aðalfundi SÍK

Aðalfundur SÍK var haldinn þann 22. júlí sl. Góð mæting var á fundinn en 20 aðildafyrirtæki sóttu fundinn.

Á fundinum fór Anton Máni Svansson, formaður SÍK, yfir stöðu kvikmyndaiðnaðar á Íslandi ásamt því að fara yfir störf stjórnar á liðnu ári. Þar ber helst að nefna fjármögnun og framtíð fyrirkomulags við úthlutun Kvikmyndasjóðs og fyrirhugaðar breytingar vegna áforma um uppsetningu á sjónvarpssjóði, áhrif innleiðingar á DSM tilskipuninni sem kveður á um sanngjarna og hlutfallslega þóknun til listflytjenda, ný vefsíða sambandsins hefur verið tekin í notkun, gjaldtaka á erlendar streymisveitur og samráð við Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Hilmar Sigurðsson, gjaldkeri SÍK, kynnti gagnsæisskýrslu félagsins vegna ársins 2022 og greindi frá úthlutun IHM rétthafagreiðslna vegna ársins 2020 og núverandi úthlutun fyrir árið 2021. Þá lagði Hilmar fram endurskoðaða ársreikninga félagsins til samþykktar.

Í fyrsta sinn um langt skeið fór fram stjórnarkjör en mikill áhugi var fyrir stjórnarsetu og í framboði voru fleiri frambjóðendur en laus stjórnarsæti. Svo fór að í kosningu voru Agnes Johansen, RVK Studios, og Hanna Björk Valsdóttir, Akkeri Films, kosnar í sæti meðstjórnenda til tveggja ára og Heather Millard, Compass Films, var kosin í sæti varamanns til tveggja ára.

Anton Máni Svansson, formaður, klárar síðara ár af tveimur og Inga Lind Karlsdóttir og Hilmar Sigurðsson, klára síðara ár af tveimur sem meðstjórnendur. Kristinn Þórðarson, klárar síðara ár af tveimur sem varamaður.

Ánægjulegt er að á þessu ári hafa 8 ný aðildarfyrirtæki sótt um aðild að félaginu, þau eru: Fenrir Films, GunHil, Akkeri Films, Compass Films, NRDR, Go to Sheep, RVK Studios og Mystery Ísland. Þannig er mikill áhugi og gróska í starfsemi félagsins sem og í greininni í heild sinni.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, erindi um stefnu og framtíðarsýn Kvikmyndamiðstöðvar. Undir lok fundar var boðið upp á spurningar og sköpuðust áhugaverðar umræður um umsóknarferli framleiðenda hjá Kvikmyndamiðstöð og samráðsferli vegna nýrrar reglugerðar um Kvikmyndasjóð.

AÐALFUNDUR SÍK

 

  Aðalfundur SÍK mun fara fram fimmtudaginn 22. júní kl. 16:00 á 1. hæð, fundarsalur: Hylur, í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Léttar veitingar verða í boði. 

Dagskrá verður samkvæmt lögum SÍK. Auglýst er eftir framboði til tveggja meðstjórnenda og eins varamanns til tveggja ára. Framboð berist á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Dagskrá aðalfundar:

1.    Fundarsetning.

2.    Skýrsla stjórnar.

3.    Gagnsæisskýrsla sbr. gr. 4.4. laga SÍK.

4.    Almenn stefna um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa.

5.    Almenn stefna um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu.

6.    Almenn fjárfestingastefna.

7.    Notkun óráðstafanlegra fjárhæða.

8.    Framlagning endurskoðaðra reikninga.

9.    Lagabreytingar.

10. Laun stjórnar.

11. Stjórnarkjör.

12. Kjör endurskoðenda.

13. Aðildarsamningur SÍK við Samtök iðnaðarins

14. Félagsgjöld ákvörðuð.

15. Önnur mál, löglega upp borin.

Kl. 17:00 Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, fjalla um stefnu og framtíðarsýn Kvikmyndamiðstöðvar.

Vefslóð fyrir skráningu hefur verið send til allra aðildarfélaga. 

Umsögn SÍK um frumvarp til laga um fjölmiðla

SÍK skilaði umsögn um frumvarp til laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, (EES-reglur, hljóð- og myndmiðlun) þann 11. maí sl.

Í umsögn sinni leggur SÍK áherslu á knýjandi þörf fyrir setningu lagaheimildar um gjaldtöku á erlendar streymisveitur líkt og tilskipun ESB 2018/180 með síðari breytingu, sem frumvarpið byggir á, heimilar. Fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra hafa nú þegar tilkynnt um tilnefningu starfshóps er samanstendur af þremur fulltrúum ráðuneyta og stefnt er að framlagningu frumvarps á haustmánuðum þessa árs. SÍK hvetur stjórnvöld til þess að hefja samtal við hagaðila innan greinarinnar vegna málsins og tryggja þannig skilvirkari niðurstöður fyrir framlagningu frumvarps.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér, þá verður umsögnin jafnframt að finna í skjalasafni á innri vef SÍK. 

Hádegisfundur SÍK

 Sanngjörn og hlutfallsleg þóknun til höfunda og listflytjenda samkvæmt DSM tilskipuninni

SÍK stendur fyrir hádegisfundi fyrir félagsmenn þriðjudaginn 2. maí kl. 12-12:50 í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35, 1. hæð fundarsalur Hylur.

Tómas Þorvaldsson, lögmaður hjá VÍK Lögmannsstofu, mun reifa mögulegar hugmyndir að útfærslu á "sanngjarnri og hlutfallslegri þóknun" til höfunda og listflytjenda samkvæmt DSM tilskipuninni í samræmi við sjónarmið og aðstöðu framleiðenda á Norðurlöndunum. 

Boðið verður upp á léttan hádegisverð. 

Fundargestir eru vinsamlega beðinir um að skrá sig hér.

 

Umsögn SÍK vegna frumvarps til laga um breytingar á kvikmyndalögum

 SÍK skilaði umsögn um frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (framleiðslustyrk til lokafjármögnunar) þann 13. apríl sl.

Í umsögn sinni fagnar SÍK frumvarpinu en það heimilar m.a. nýjan flokk framleiðlsustyrkja til lokafjármögnunar á gerð leikinna sjónvarpsþáttaraða. Undanfarin ár hefur SÍK í málflutningi sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að auka við stuðning við framleiðslu sjónvarpsþáttaraða ásamt því að styrkja samkeppnisstöðu sjálfstæðra framleiðenda. SÍK lagði þó áherslu á að mikilvægt væri að nýjum styrkjaflokki fylgi fjárheimildir til þess að nýr styrkjaflokkur gangi ekki á önnur verkefni innan sjóðsins.  

Umsögnina í heild sinni má lesa hér, þá verður umsögnin jafnframt að finna í skjalasafni á innri vef SÍK.