SÍK, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna niðurskurðar Kvikmyndasjóðs.
Það stefnir í annað stærsta framleiðsluár í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði hér á landi samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofunni. Ársvelta iðnaðarins hefur þrefaldast á einum áratug, vel á þriðja þúsund manns starfa við kvikmyndagerð og fjöldi fyrirtækja í greininni hefur tvöfaldast undanfarin fimm ár.
Í umræðum og skrifum um ríkisútgjöld virðast margir falla í þá gildru að skilja ekki á milli hefðbundinna útgjaldaliða ríkisins annars vegar og fjárfestinga hins vegar. Á þessu er hins vegar eðlismunur. Skattaívilnanir og hvers kyns hvatar sem komið er á hafa það meginmarkmið að breyta hegðun, hreyfa við og styðja við aukna verðmætasköpun. Nær allar atvinnugreinar á Íslandi hafa á einhverjum tímapunkti notið stuðnings ríkisins, með einum eða öðrum hætti og sérstaklega á upphafsstigum.
Í nýlegri grein í Kjarnanum kemur fram að á Íslandi séu um 115 þúsund háhraða nettengingar og að íslenski fjarskiptageirinn velti um 50 milljörðum árlega. Þrátt fyrir þessa gífurlegu veltu greiðir fjarskiptageirinn mjög takmarkað til höfundarréttarhafa sem þó eiga stóran hluta þess efnis sem verið er að flytja um veiturnar og neytendur sækjast eftir og greiða fjarskiptafyrirtækjunum fyrir flutning á. Þannig er viðskiptamódel fjarskiptageirans byggt upp á að hann selur inn á frítt efni sem neytendur sækjast eftir.
Við fjárlagagerð haustið 2009 voru framlög til Kvikmyndasjóðs skorin niður um 35% frá samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld. Þessi niðurskurður kom fram strax á á árinu 2010 þegar velta í framleiðslu kvikmyndaefnis dróst verulega saman milli ára, ársverkum fækkaði umtalsvert og spekileki brast á í greininni.
Um hagræn áhrif kvikmyndaframleiðslu
eftir Hjálmtý Heiðdal
Nýlega sótti ég tvo fundi þar sem fjallað var um stöðu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. Fyrri fundurinn var málþing á vegum RIFF undir skrítinni yfirskrift: Hvert fer íslensk kvikmyndagerð héðan? Sá seinni var á vegum Háskólans að Bifröst og fagfélaga kvikmyndageirans. Fyrri fundurinn var fjölsóttur og misheppnaður. Þar sat aðeins einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar og þingsins allan fundinn; Árni Páll Árnason viðskipta- efnahagsmálaráðherra. Þótt hans innlegg í umræðuna væri fróðlegt og vísaði til framtíðar þá kom það skýrt fram að kvikmyndagerð væri ekki á hans málasviði og má því segja að hann hafi verið rangur maður vitlausum stað. Fjarvera fulltrúa Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stutt viðdvöl Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra gerði útslagið, umræðan náði ekki eyrum þeirra sem hafa möguleika á að koma viðhorfum kvikmyndagerðarmanna áfram. Baltasar Kormákur stakk uppá því að menn yfirgæfu salinn og sinntu öðrum málum í stað þess að enn eina ferðina hlusta á kollegana kvarta yfir skilningslausu ríkisvaldi. Sennilega var það besta hugmynd málþingsins og í anda hinnar skrítnu yfirskriftar þess: komum okkur héðan!