Fjárfesting sem skilar arði- endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar
Í umræðum og skrifum um ríkisútgjöld virðast margir falla í þá gildru að skilja ekki á milli hefðbundinna útgjaldaliða ríkisins annars vegar og fjárfestinga hins vegar. Á þessu er hins vegar eðlismunur. Skattaívilnanir og hvers kyns hvatar sem komið er á hafa það meginmarkmið að breyta hegðun, hreyfa við og styðja við aukna verðmætasköpun. Nær allar atvinnugreinar á Íslandi hafa á einhverjum tímapunkti notið stuðnings ríkisins, með einum eða öðrum hætti og sérstaklega á upphafsstigum.
Það er ekki það sama að niðurgreiða innlenda atvinnustarfsemi þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar ráðast og takmarkast við stærð og landamæri og að keppa við önnur ríki um hugvit, verðmæti, störf og þekkingu þar sem framboðið er nær ótakmarkað, í samhengi við stærð Íslands. Hið síðarnefnda krefst þess að við höfum eitthvað fram að færa, samkeppnisforskot, sem aðrir hafa ekki eða að við sjáum hag í því að keppa við aðrar þjóðir á tilteknu sviði vegna ábatans sem getur hlotist.
Í grein sem birtist hér á Kjarnanum þann 10. október sl. var sterklega ýjað að því að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar væru gjöf til kvikmyndagerðarmanna og jafnvel leikaranna sjálfra frá íslenska ríkinu. Þetta er beinlínis rangt því í öllum tilvikum endurgreiðslunnar er ríkissjóður betur staddur á eftir, en fyrir. Þá var tekið fram að það væri rangt að kvikmyndastjörnur kæmu til landsins til að taka upp bíómyndir vegna náttúrufegurðar.
Staðreyndin er sú að óviðjafnanleg náttúrufegurð og einstakir tökustaðir hafa mikið um það að segja að Ísland verður fyrir valinu hjá erlendum kvikmyndaframleiðendum þó það dugi ekki eitt og sér. Ástæðan er sú að flestöll ríki sem við berum okkur saman við bjóða upp á sambærilegt fyrirkomulag og er við lýði hér á landi hvað varðar endurgreiðslur eða skattaívilnanir vegna kvikmyndaframleiðslu. Án slíkra hvata værum við fljót að hverfa af kortinu þrátt fyrir náttúrufegurðina. Þess má geta að einn af hverjum sex ferðamönnum sem heimsótt hafa landið segist hafa fengið áhuga á Íslandi eftir að hafa séð myndefni héðan. Kvikmyndaiðnaðurinn styður þannig við ferðaþjónustuna með því að auka eftirspurn en einnig með því að skipta við bílaleigur, veitingahús og hótel svo dæmi séu nefnd.
Á hverju ári er haldin sérstök ráðstefna í London þar sem kvikmyndaframleiðendur og kynningaraðilar koma saman og bera saman bækur sínar. Það er sláandi að sjá það berum augum hversu hörð þessi samkeppni er. Ástæðan er einföld. Það er ákjósanlegt að taka þátt vegna þess að fjárfesting í kvikmyndaframleiðslu skilar sér margfalt til baka. Þetta hafa fjölmargar innlendar og erlendar úttektir og rannsóknir sýnt fram á.
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi voru teknar upp fyrir rétt um tíu árum síðan. Áhrifin af þessu kerfi hafa verið yfirfarin reglulega síðan þá og niðurstaðan er alltaf sú sama. Það margborgar sig að viðhalda því. Í umsögn KPMG og VÍK lögmannsstofu frá árinu 2019 í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á endurgreiðslukerfinu kemur meðal annars fram að áhrif kerfisins á greiðslujöfnuð ríkissjóðs hafi ávallt verið jákvæð. Með öðrum orðum hefur endurgreiðslukerfið ávallt skapað meiri tekjur fyrir ríkissjóð en það hefur kostað. Í skýrslu Capacent frá árinu 2016 kom fram að skatttekjur ríkisins vegna kvikmyndaiðnaðar væru tvisvar sinnum meiri en heildarframlög til iðnaðarins, þar með talin framlög til Ríkisútvarpsins sem nema nokkrum milljörðum á ári. Þá eru ótalin önnur afleidd áhrif af kvikmyndaframleiðslu, svo sem gjaldeyrisöflun, sköpun óbeinna starfa og jákvæð áhrif á ferðaþjónustu, sem eru óumdeild.
Kvikmynda- og sjónvarpsiðnaður á Íslandi hefur verið í blóma að undanförnu. Það er ekki tilviljun. Skilvirkt og samkeppnishæft endurgreiðslukerfi, ásamt því samkeppnisforskoti sem náttúrufegurðin veitir okkur og uppbygging á þekkingu starfsfólks, eiga þar stærstan hlut að máli. Áður en umrætt kerfi var sett á laggirnar var kvikmyndaiðnaður hér á landi ekki svipur hjá sjón þó öflugt og drífandi fólk hafi sannarlega gert kvikmyndir sem vöktu athygli um allan heim. Vegna kerfisins hefur byggst upp arðbær atvinnugrein sem skilar arði til samfélagsins í formi starfa, gjaldeyristekna og eflingar á ímynd Íslands. Ársvelta greinarinnar hefur þrefaldast á einum áratug, vel á þriðja þúsund manns starfa við kvikmyndagerð og fjöldi fyrirtækja í greininni hefur tvöfaldast undanfarin fimm ár. Þannig hefur tekist að byggja upp þekkingu og reynslu (framboð) með því að örva eftirspurn.
Nýlega kom út kvikmyndastefna til ársins 2030. Henni er ætlað að styrkja íslenska menningu og tungu, efla atvinnulífið og stuðla að sterku orðspori landsins. Í stefnunni er tekið fram að endurgreiðslukerfið þurfi að standast alþjóðlega samkeppni á hverjum tíma. Við eigum í keppni við aðrar þjóðir um verðmætasköpun. Á sama tíma er nauðsynlegt að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi aukist enn frekar. Kvikmyndaiðnaður hefur alla burði til að vaxa og dafna enn frekar hér á landi en til þess að svo megi verða þurfum við stöðugt að huga að samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði sem öðrum.
Endurgreiðslur til kvikmyndagerðar eru arðbær fjárfesting og við eigum að sækjast eftir því að fá fleiri kvikmyndastjörnur á borð við Vin Diesel til landsins sem greiða háa skatta hér og skilja eftir önnur afleidd verðmæti.
Höfundur er sviðstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.