Vöxtur í kvikmyndagerð á Íslandi svakalegur

„Vöxturinn í kvikmyndagerð á Íslandi hefur verið svakalegur. Þessar tölur sýna okkur hvað kvikmyndagerðin er raunverulega orðin stór,“ segir Hilmar Sigurðsson, kvikmyndaframleiðandi og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), í Morgunblaðinu. 

Í Morgunblaðinu kemur fram að SÍK hafi látið ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics gera úttekt á skattaáhrifum starfsgreinarinnar á Íslandi. Í skýrslu fyrirtækisins komi fram að árið 2023 greiddi íslensk kvikmyndagerð mun meira í beina skatta en hún þáði í fjárfestingu og styrki frá hinu opinbera. Þá segir að sem kunnugt sé hafi verið skiptar skoðanir á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar hér á landi sem og framlögum í Kvikmyndasjóð.

Í skýrslunni segi að skattalegt framlag kvikmyndagreinarinnar hafi árið 2023 verið 7,4 milljarðar króna með virðisaukaskatti en styrkir til kvikmyndagerðar og kvikmyndanáms það ár hafi numið samtals 4,7 milljörðum. Greinin hafi með með öðrum orðum greitt 1,6 sinnum meira í beina skatta en hún þáði í fjárfestingu og styrki frá hinu opinbera. „Við skulum segja að þessi niðurstaða hafi komið mörgum á óvart. Þetta er hins vegar mjög jákvætt, við erum ánægð að fá þarna formlega staðfestingu á því sem við höfum haldið fram. Það að við greiðum 1,6 sinnum meira í beina skatta en kemur frá ríkinu í fjárfestingu og styrkjum er mjög merkilegt og þá er ekki einu sinni farið að ræða ruðningsáhrif eða önnur áhrif, til dæmis á ferðaþjónustu.“

Hægt er að nálgast skýrsluna hér