Yfirlýsing stjórnar SÍK vegna fjárlagafrumvarps 2014

Í  fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 sem lagt var fram á Alþingi í dag kemur fram að Kvikmyndasjóður verður skorinn niður um 42% á næsta ári frá því sem áætlað var. Þannig fer kvikmyndasjóður úr 1.070 m sem voru á áætlun í 624,7 m króna. Í annað skiptið á fjórum árum verður kvikmyndagreinin fyrir risa höggi í niðurskurðartillögum stjórnvalda og enn og aftur er vegið að uppbyggingu á atvinnugrein sem kominn var á góðan skrið. 

Þessi niðurskurður er fordæmalaus í menningarhluta fjárlaganna og nær einsdæmi í öllum fjárlögunum. Framleiðendur sem hafa á ný byggt upp greinina eftir höggið 2010 kippa nú að sér höndum og gera má ráð fyrir að reynslan frá niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2010 muni endurtaka sig. Þannig má áætla að tekjur ríkissjóðs lækki um 615 milljónir, yfir 200 ársverk tapist í greininni og að þjóðarbúið verði af yfir hálfum milljarði í erlendum gjaldeyri, strax á næsta ári.

SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda lýsir yfir miklum vonbrigðum með þessa ráðagerð stjórnvalda og harmar að þessi ákvörðun sé tekin, þrátt fyrir yfirlýsingu forsætisráðherra um annað í Kastljósi þann 11. september sl.  Það segir sig sjálft að uppbygging á atvinnugrein sem þarf sífellt að búa við slík skilyrði hafa mikil áhrif á hana og ljóst að enn á ný munum við sjá að baki margs af okkar færasta fólki sem mun leita í vellaunuð störf erlendis.

Í niðurskurðinum fyrir fjórum árum, glímdi greinin við vöntun á talnaefni og haldbærum upplýsingum um hagræn áhrif hennar en unnin hefur verið bragabót á því og í dag er hægt að fullyrða með vissu um áhrifin af þessum niðurskurði. Þau helstu eru rakin í smáatriðum hér í hjálögðu minnisblaði.

Auk þessara efnahagslegu áhrifa, þá er ótalið og þau menningarverðmæti sem Ísland verður af og niðurstaðan verður sú að hér verða framleidd færri innlend verk á íslensku, fyrir Íslendinga.

SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda skorar á Alþingi að leiðrétta þessi áform í meðförum fjárlaga á þingi. Það getur ekki verið ætlan löggjafans að minnka tekjur ríkissjóðs, að fækka störfum og að stuðla að landflótta sérfræðinga við samþykki á fjárlögum.

Reykjavík, 1. október 2013

Stjórn SÍK

Hlekkir á ítarefni:

Hagræn áhrif kvikmyndagerðar, Dr. Ágúst Einarsson, Bifröst 2011: http://rsm.bifrost.is/files/Skra_0057197.pdf

Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk? Fagfélög í kvikmyndagerð, 2010:http://www.producers.is/media/PDF/Hverjir_fjarmagna_islensk_kvikmyndud_verk.pdf

Úrklippa úr Kastljósi 11. september 2013, Viðtal við forsætisráðherra: http://www.youtube.com/watch?v=snpXAWCO2qA&feature=youtu.be

Þróttmikil atvinnugrein í miklum vexti – grein formanns SÍK, 5. september 2013
http://www.producers.is/Greinar/Lesagrein/throttmikilatvinnugreinimiklumvexti/

Með yfirlýsingunni fylgir minnisblað um áhrifin af þessari lækkun til kvikmyndasjóða.