Þróttmikil atvinnugrein í miklum vexti

Við fjárlagagerð haustið 2009 voru framlög til Kvikmyndasjóðs skorin niður um 35% frá samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld. Þessi niðurskurður kom fram strax á á árinu 2010 þegar velta í framleiðslu kvikmyndaefnis dróst verulega saman milli ára, ársverkum fækkaði umtalsvert og spekileki brast á í greininni.

Við höggið kom í ljós að tölulegar upplýsingar um greinina voru á reiki, ekki lá fyrir hvernig kvikmyndagerð var raunverulega fjármögnuð og ljóst var að gögn vantaði til að meta þann fjölda starfa sem tapaðist við niðurskurðinn.

Við þessu var brugðist, ekki síst með bókinni „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“ eftir Dr. Ágúst Einarsson, þar sem hans niðurstaða er að kvikmyndagerðin verði innlend stóriðja ef framlög í Kvikmyndasjóð verði aukin, hámark á opinberum stuðningi við kvikmyndagerð verði hækkað og að menntun í kvikmyndagerð verði tekin upp á háskólastigi.

Þessi áform eru nú öll komin á góðan rekspöl. Kvikmyndasjóður var aukinn myndarlega í ár, undanþága frá ákvæði um hámark opinbers stuðnings hefur fengist og nám á háskólastigi í kvikmyndagerð er í vinnslu. Auk þess hafa lög um tímabundna endurgreiðslu verið framlengd. Og áhrifin láta ekki á sér standa.

2012 var besta ár í kvikmyndaframleiðslu frá upphafi með veltu upp á um 11,7 milljarðar króna, sem er 250% aukning frá 2010. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs er veltuaukningin frá sama tímabili 2012 um 23% og áhrifin af hækkun Kvikmyndasjóðs koma strax fram. Hækkunin skapar í ár um 240 ný ársverk. Framlög hins opinbera fimmfaldast í meðförum kvikmyndaframleiðenda og draga að meiri erlenda fjárfestingu en sem nemur framlögunum.

Nú þarf að tryggja að atvinnugreinin geti haldið áfram að dafna með því að verja núverandi framlög í Kvikmyndasjóð og koma í gang námi á háskólastigi, svo greinin geti raunverulega orðið næsta stóriðja sem beislar hugarafl og skapi fjölmörg ný skapandi störf. Kvikmyndatökur fara síðan fram um allt land og hafa mikil efnahagsleg áhrif á nærsamfélagið þar sem þær ber niður.

Hilmar Sigurðsson

formaður SÍK – Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. september 2013