SKJALDBORG 2025 - UMSÓKNIR HAFNAR

Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda fer fram um hvítasunnuhelgina

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, fer fram á Patreksfirði dagana 6.-9. júní 2025. Opnað hefur verið fyrir umsóknir um frumsýningarverk og verk í vinnslu til kynningar á hátíðinni. Fyrri umsóknarfrestur er til 3. mars 2025 og seinni frestur rennur út 24. mars 2025. Umsóknarform er aðgengilegt á vef hátíðarinnar: skjaldborg.is

Hátíðin vekur athygli á því að umsóknir geta innihaldið hlekki á myndir sem eru í eftirvinnslu, þar sem nýjasta útgáfa verksins fylgir með, auk lýsingar á stigi verksins og áætlunar um verklok.

Stuðningur við íslenska heimildamyndagerð

Skjaldborg frumsýnir íslenskar heimildamyndir og leggur áherslu á að styðja við þann vettvang. Hægt er að sækja um í tveimur flokkum:

  • Frumsýning á heimildamynd
  • Verk í vinnslu

Verðlaun Skjaldborgar

Heimildamyndir sem frumsýndar eru á hátíðinni keppa um þrjú verðlaun:

  • Einarinn – áhorfendaverðlaun.
  • Ljóskastarinn – verðlaun dómnefndar fyrir myndir 40 mínútur og lengri.
  • Skjöldurinn – verðlaun dómnefndar fyrir myndir 39 mínútur og styttri.

Skilyrði fyrir frumsýningu 2025

Til að verk sé gjaldgengt til frumsýningar á Skjaldborg 2025, þarf það að uppfylla eftirfarandi  tvö skilyrði:

1. Myndin þrarf að uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum:

  • Vera íslensk framleiðsla (þar sem framleiðslufyrirtæki og framleiðandi teljast aðalframleiðendur).
  • Leikstjóri er íslenskur eða með lögheimili á Íslandi.
  • Verkið er á íslensku eða hefur íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun.

2. Myndin má ekki hafa verið sýnd opinberlega á Íslandi fyrir lok Skjaldborgar 2025. Opinberar sýningar eru t.d. sýningar í kvikmyndahúsum, á kvikmyndahátíðum, í sjónvarpi eða á opnum vefmiðlum. Lokaðar sýningar fyrir aðstandendur og sýningar á vegum kvikmyndaskóla teljast ekki til opinberra sýninga. Heimildamyndir sem hafa verið sýndar erlendis eru þó gjaldgengar.

Umsóknir um erlendar heimildamyndir

Hægt er að sækja um þátttöku fyrir erlendar heimildamyndir með íslenskum meðframleiðendum. Stjórn Skjaldborgar mun fara sérstaklega yfir þær umsóknir og meta gjaldgengi.

Ítarlegri upplýsingar má finna á heimasíðu Skjaldborgar