Ný stjórn kjörin á aðalfundi SÍK

Aðalfundur SÍK var haldinn þann 22. júlí sl. Góð mæting var á fundinn en 20 aðildafyrirtæki sóttu fundinn.

Á fundinum fór Anton Máni Svansson, formaður SÍK, yfir stöðu kvikmyndaiðnaðar á Íslandi ásamt því að fara yfir störf stjórnar á liðnu ári. Þar ber helst að nefna fjármögnun og framtíð fyrirkomulags við úthlutun Kvikmyndasjóðs og fyrirhugaðar breytingar vegna áforma um uppsetningu á sjónvarpssjóði, áhrif innleiðingar á DSM tilskipuninni sem kveður á um sanngjarna og hlutfallslega þóknun til listflytjenda, ný vefsíða sambandsins hefur verið tekin í notkun, gjaldtaka á erlendar streymisveitur og samráð við Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Hilmar Sigurðsson, gjaldkeri SÍK, kynnti gagnsæisskýrslu félagsins vegna ársins 2022 og greindi frá úthlutun IHM rétthafagreiðslna vegna ársins 2020 og núverandi úthlutun fyrir árið 2021. Þá lagði Hilmar fram endurskoðaða ársreikninga félagsins til samþykktar.

Í fyrsta sinn um langt skeið fór fram stjórnarkjör en mikill áhugi var fyrir stjórnarsetu og í framboði voru fleiri frambjóðendur en laus stjórnarsæti. Svo fór að í kosningu voru Agnes Johansen, RVK Studios, og Hanna Björk Valsdóttir, Akkeri Films, kosnar í sæti meðstjórnenda til tveggja ára og Heather Millard, Compass Films, var kosin í sæti varamanns til tveggja ára.

Anton Máni Svansson, formaður, klárar síðara ár af tveimur og Inga Lind Karlsdóttir og Hilmar Sigurðsson, klára síðara ár af tveimur sem meðstjórnendur. Kristinn Þórðarson, klárar síðara ár af tveimur sem varamaður.

Ánægjulegt er að á þessu ári hafa 8 ný aðildarfyrirtæki sótt um aðild að félaginu, þau eru: Fenrir Films, GunHil, Akkeri Films, Compass Films, NRDR, Go to Sheep, RVK Studios og Mystery Ísland. Þannig er mikill áhugi og gróska í starfsemi félagsins sem og í greininni í heild sinni.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, erindi um stefnu og framtíðarsýn Kvikmyndamiðstöðvar. Undir lok fundar var boðið upp á spurningar og sköpuðust áhugaverðar umræður um umsóknarferli framleiðenda hjá Kvikmyndamiðstöð og samráðsferli vegna nýrrar reglugerðar um Kvikmyndasjóð.