Anton er nýr formaður SÍK

Anton Máni Svansson frá Join Motion Pictures var kosinn formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær. Hilmar Sigurðsson frá Sagafilm var kosinn gjaldkeri og Inga Lind Karlsdóttir frá Skot Productions meðstjórnandi. Aðrir í stjórn eru Guðbergur Davíðsson, Júlíus Kemp og varamenn eru Kristinn Þórðarson og Hlín Jóhannesdóttir.

Anton er meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Join Motion Pictures og hefur starfað sem framleiðandi og framkvæmdastjóri þess undanfarin 15 ár. Hann framleiddi meðal annars myndirnar Hjartasteinn, Hvítur, hvítur dagur, Berdreymi og Volaða land. Kvikmyndir hans hafa verið frumsýndar á stærstu hátíðum heims, þar á meðal í Cannes, Berlín, Feneyjum, Locarno og Toronto og hafa hlotið yfir 170 alþjóðleg verðlaun ásamt 16 Eddu-verðlaunum. Þar að auki hlaut hann Lorens verðlaunin fyrir kvikmyndaframleiðanda ársins á Gautaborgarhátíðinni í Svíþjóð árið 2017.

Á aðalfundinum var ársskýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2021-2022 flutt þar sem fjallað var um helstu verkefni og störf stjórnar á liðnu starfsári. Þá var ársreikningi félagsins gerð skil. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf kynnti Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, nýja vefsíðu SÍK sem mun líta dagsins ljós á næstu vikum. Þá var opnað fyrir umræður og óskað eftir áherslumálum frá aðildarfélögum. Þar bar hæst kjaramál innan greinarinnar og skattlagning streymisveitna.

mbl.is, 3. júní 2022.
Vísir, 3. júní 2022.