Vel heppnuð ívilnun
Sértækir opinberir styrkir eða niðurgreiðslur til einstakra atvinnugreina eru jafnan litin hornauga í hagfræðinni. Almennt er litið svo á að markaðshagkerfið leiði sjálft til hagkvæmustu nýtingar á mannauði, fjármagni og annarra framleiðsluþátta og að stuðningur leiði til óhagkvæmni. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi, bæði innlend og erlend, sem sýna fram á þetta. En á þessu eru hins vegar til undantekningar og dæmi til um vel heppnaðar stuðningsaðgerðir hins opinbera. Endurgreiðslukerfi til kvikmyndaiðnaðarins sem sett var á fót árið 1999 er athyglisvert dæmi um eitt slíkt. Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi er endurgreiðslukerfið rakið ítarlega og niðurstöðurnar benda eindregið til að sett markmið hafi náðst og gott betur.
Mikilvæg niðurstaða rannsóknarinnar er að tekjur ríkisins af kvikmyndaframleiðslu eru umtalsvert hærri en endurgreiðslurnar. Þá er ekki farið að líta til margvíslegra óbeinna áhrifa. Má þar nefna eflingu innlendrar menningar, kynningu á sögu lands og náttúru, aukin þekking og reynsla kvikmyndagerðamanna auk þeirra áhrifa sem vaxandi kvikmyndagerð á Íslandi kann að hafa að straum erlendra ferðamanna til landsins.
Sá mikli fjöldi erlendra kvikmyndaverkefna sem komið hafa hingað til lands á síðustu árum hefur lyft þekkingarstigi innlendra fyrirtækja á þessu sviði á hærra stig og gert þau jafnt og þétt hæfari til að taka að sér stærri og flóknari verkefni. Þannig hefur stuðningsumhverfi kvikmyndaiðnaðarins hérlendis stuðlað að mikilvægari þekkingaryfirfærslu sem mun styðja við frekari vöxt greinarinnar. Ein birtingarmynd þessarar yfirfærslu er að innlend kvikmyndafyrirtæki geta nú í auknu mæli tekið að sér eftirvinnslu kvikmynda. Það þýðir annars vegar að umsvif í greininni verða ekki eins sveiflukennd og fleiri varanleg störf skapast og hins vegar að arðbærari hluti framleiðsluferlis kvikmyndar verður unnin hérlendis.
Áðurnefnd óbein áhrif umfram hin beinu eru mikilvægur þáttur í ákvörðun um að styðja við greinina með þeim hætti sem gert er. Stuðningur sem þessi veldur svokölluðum jákvæðum ytri áhrifum en það er mikilvæg hagræn réttlætingin fyrir opinberum stuðningi sem þessum. Með því er átt við að fleiri aðilar en þeir sem njóta stuðnings verði fyrir jákvæðum áhrifum. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur vaxið mikið síðustu ár og á því tímabili sem var til skoðunar í rannsókn Hagfræðistofnunnar 2011-2014 nam veltan ríflega 50 milljörðum króna. Talið er að bein og óbein störf séu alls um 3.100 í greininni
Að mati Hagfræðistofnunnar er það eftirtektarvert að fyrirkomulag styrkjakerfisins á er bæði einfallt og gagnsætt í samanburði við fjölmörg önnur lönd sem styðja við þessa grein. Allt ber þetta að sama brunni – að kerfið hafi náð þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að þetta verði svona áfram. Mikil samkeppni er milli landa um að fá til sín kvikmyndaverkefni. Þess vegna er mikilvægt og hagkvæmt að viðhalda því vel heppnaða stuðningsumhverfi sem búið er að byggja upp. Þannig má betur tryggja samkeppnishæfni greinarinnar og stuðla að áframhaldandi vexti.
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins