Góðar fréttir fyrir kvikmyndaiðnaðinn

Tekjur ríkissjóðs af kvikmyndaframleiðslu eru hærri en endurgreiðslur til framleiðenda skv. nýútkominni skýrslu um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi. Núverandi 20% endurgreiðsla til kvikmyndaiðnaðarins er því að skila sér. Sé einungis litið til beinna áhrifa eru skatttekjur kvikmyndaframleiðslu að jafnaði hærri en sem nemur endurgreiðslum. 

Skýrslan var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands samkvæmt beiðni frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni er sjónum aðallega beint að þeim 33% kvikmyndaverkefnum sem hafa rétt til endurgreiðslna úr endurgreiðslukerfi ríkisins samkvæmt lögum nr. 43/1999.

Velta kvikmyndaiðnaðarins yfir fjögurra ára tímabil 2011-2014, við framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni, var 50,4 m.a. og nýtur kvikmyndagreinin um 10,9% heildarívilnana að meðaltali yfir sama tímabil. Endurgreiðslur við kvikmyndaiðnaðinn skila umtalsverðum virðisauka til baka til þjóðarbúsins en árið 2013 var virðisaukinn nær tvöfalt framlag hins opinbera.

Markmiðin með endurgreiðslunum var að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru. Mikilvægustu niðurstöður skýrslunnar staðfesta að þeim markmiðum með endurgreiðslunum hafi verið náð. Þá segir í greinargerð með frumvarpinu að því sé einnig ætlað að laða erlenda kvikmyndagerðarmenn til landsins og um leið efla innlenda kvikmyndagerð. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn öðlist þannig reynslu og þjálfun auk þess sem tækjabúnaður batni. Einnig kemur fram að fyrirkomulag styrkjakerfisins við kvikmyndagerð á Íslandi sé einfalt og gagnsætt í samanburði við ýmis önnur lönd.

Síðan endurgreiðslukerfinu var komið á, hefur kvikmyndagerð á Íslandi vaxið og dafnað, þekking hefur aukist sem og umfang hvort sem litið er til kostnaðar eða virðisauka og erlendum verkefnum fjölgað mikið. Hagsmunaðilar og aðrir tengdir greininni voru sammála um það að án endurgreiðslnanna myndi stór hluti af umsvifum kvikmyndaiðnaðarins hverfa og umfang erlendra verkefna yrðu mun minni hér á landi. Þá töldu þau einnig líklegt að með auknum endurgreiðslum mætti laða að enn fleiri erlend kvikmyndaverkefni.