Erlend verkefni keyra áfram mikinn vöxt í framleiðslu á kvikmynduðu efni
Hagstofan var að gefa út veltutölur yfir fyrstu 6 mánuði ársins. Veltan í skattflokknum „Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni“ hefur meira en tvöfaldast á milli ára og er velta ársins orðin jöfn veltu alls ársins 2011.
Þegar skoðaðar eru tölur um endurgreiðslur vegna framleiðslu á kvikmynduðu efni það sem af er ári, kemur í ljós að 83% af endurgreiðslunni það sem af er ári er til erlendra verkefna. Gera má ráð fyrir að hluti þeirra verkefna sem fengið hafa endurgreiðslu hafi verið unnin á síðasta ári en þessi þróun sýnir líka hvernig innlenda framleiðslan er á undanhaldi.
Það er ánægjulegt að framleiðsluhluti greinarinnar sé í miklum vexti en það verður ekki ítrekað nógsamlega hversu mikilvægt það er fyrir okkar menningu að framleidd séu kvikmyndaverk á íslensku, fyrir Íslendinga.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs vantar allavega 100 m uppá að kreppusamningurinn frá 2010 sé uppfylltur á núvirði og það vantar um 500 m uppá að ná markmiðum þeim sem sett voru í samkomulagi við þáverandi ríkisstjórn árið 2006. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs eru meira en 100 milljörðum hærri á næsta ári en árið 2006, á núvirði.