Frestun á hluta kvikmyndaendurgreiðslna
Hér er tilkynning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en ráðuneytið mun að þessu sinni þurfa að nýta heimild um frestun úrborgunar endurgreiðslna sem eru umfram fjárveitingar Alþingis í fjárlögum 2014.
Meðfylgjandi upplýsingar hafa verið sendar bréflega til þeirra fyrirtækja sem ætlað er að sæki um endurgreiðslu á næstu mánuðum.
Þar eru kvikmyndaframleiðendur jafnframt hvattir til að senda áfram inn beiðnir um endurgreiðslu um leið og framleiðslu á yfirstandandi verkefnum lýkur.
– – –
Frestun á hluta kvikmyndaendurgreiðslna
Á fjárlögum fyrir árið 2014 var ráðstafað 837,2 m.kr. til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi (fjárlagaliður 04-521).
Sú þróun hefur orðið í kvikmyndagerð hér á landi að undanförnu að veitt vilyrði um endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu stefna verulega framúr fjárheimildum í fjárlögum 2014.
Til að mæta þessu hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra farið fram á viðbótarfjárveitingu í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2014. Að öllu jöfnu afgreiðir Alþingi frumvarp til fjáraukalaga í byrjun desember ár hvert.
Í 7. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, kemur fram að ráðherra skuli setja reglugerð um framkvæmd laganna og að í henni skuli kveðið á um heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Er þessi fyrirvari tekinn fram í þeim vilyrðum sem veitt eru.
Í 8. gr. reglugerðar nr. 622/2012 er að finna útfærslu á þessu þar sem segir: Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum Alþingis í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ráðherra hefur heimild til að fresta útborgun endurgreiðslna sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Séu samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er ráðherra heimilt að fresta endurgreiðslu, annað hvort að öllu leyti eða að hluta til, yfir á næsta fjárlagaár.
Með vísan til framangreinds er sú stað komin upp að grípa þarf til þessarar heimildar um frestun úrborgunar endurgreiðslna sem eru umfram fjárveitingar Alþingis.
Með vísan til laga nr. 43/1999, sbr. reglugerðar nr. 622/2012, eru kvikmyndaframleiðendur hvattir til að senda inn beiðni um endurgreiðslu þegar framleiðslu á yfirstandandi verkefni lýkur svo fara megi yfir gögn og leggja fyrir nefnd um endurgreiðslur.
Ráðuneytið mun greiða út í samræmi við samþykkta fjárveitingu Alþingis, en eftir það munu endurgreiðslur tefjast þar til fjáraukalög hafa verið samþykkt. Hluti áætlaðra endurgreiðslna 2014 mun samkvæmt framangreindu flytjast fram í byrjun árs 2015.
28. ágúst 2014
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið