Mikilvæg hækkun sem skapar mörg ný störf
Það voru sérlega ánægjulegar fréttir sem bárust af Alþingi um að samþykkt hafi verið samhljóða að hækka hlutfall tímabundinnar endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi úr 14% í 20%. Þessi ákvörðun er mjög mikilvæg þeim framleiðslufyrirtækjum sem sinna þjónustu við erlenda kvikmyndagerð á Íslandi en hún er ekki síður mikilvæg fyrir kvikmyndaframleiðslufyrirtæki sem framleiða íslenskar kvikmyndir.
Náttúra Íslands og öll hennar ótrúlegu myndform eru nú orðin samkeppnishæf á nýjan leik og við höfum séð nokkrar stórmyndir vera að hluta eða miklu leiti teknar upp hér á landi. Þessi verkefni hafa skapað hundruðir starfa og nú aukast líkurnar á því að fleiri slík verkefni verið tekin hér á landi. Það mun styrkja enn frekar við þann faghóp sem hefur orðið til hér á undanförnum árum og tryggja stöðugra framboð að atvinnu fyrir þann faghóp sem skilar sinni vinnu fyllilega samkeppnishæf við það besta sem gerist erlendis.
Fyrir íslenska kvikmyndaframleiðendur þýðir þessi breyting að þrautarganga fjámögnunar á kvikmyndum verður einfaldari, því líkurnar á stærri heimastuðningi aukast verulega, sem gerir frekari fjármögnun auðveldari. Það er flókið verk að fjármagna kvikmynd og mjög flóknir samningar sem liggja þar að baki og því er þessi hækkun mikilvægt innlegg í að einfalda fjármögnunarferil og þar með samninga sem liggja að baki fjármögnunar kvikmynda.
Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK gerði nýlega könnun meðal félaga sem eiga aðild að sambandinu á fjölda starfa og veltu á árunum 2007 og 2008. Þau fyrirtæki sem svörðu sköpuðu 146 störf árið 2008 og velta þeirra var um 2,8 milljarðar króna. Ef svörin sem bárust eru notuð til að áætla varlega á þau fyrirtæki sem ekki svöruðu, þá kemur út að um 225 árverk voru hjá félögum í SÍK árið 2008 og að velta þeirra var um 4,2 milljarðar, eða 18,7 milljónir á hvert starf. Ef sömu forsendur eru notaðar yfir kvikmyndaiðnaðinn í heild sinni, þá má áætla að nær 300 ársverk séu í iðnaðinum á Íslandi.
Hvernig svo sem staða einstakra innlendra kvikmyndagerðarmanna er þá hlýtur það að vera öllum fagnaðarefni að verið sé að auka við endurgreiðslur af kvikmyndagerð. Og hér er lykilorðið endurgreiðslur, því áður en þær koma til, hefur kvikmyndaframleiðslan þegar greitt meira inn í ríkissjóð en kemur til endurgreiðslu.
Hilmar Sigurðsson
– – –
Höfundur er ritari SÍK og framleiðandi hjá CAOZ hf.