Gróska í gerð heimildakvikmynda

Nú eru tvær íslenskar heimildamyndir sýndar í kvikmyndahúsum borgarinnar. Draumalandið og myndin um Bobby Fischer og Sæma rokk í Háskólabíói, og nýlokið er sýningum á mynd Friðriks Þórs um Sólskinsdrenginn Kela. 

Uppgangur heimildakvikmynda á Íslandi er staðreynd og á m.a. rætur sínar að rekja til breytinga á kvikmyndasjóði sem komu til framkvæmda um síðustu aldamót.

 

Þá var kvikmyndasjóði skipt í deildir og heimildamyndagerðarmenn þurftu ekki að keppa við aðrar greinar kvikmynda um fjármagn frá sjóðnum.
Í vinnslu er fjöldi mjög spennandi heimildamynda sem spanna vítt svið. Í sumum myndanna er litið til baka og örlög fyrri kynslóða könnuð, aðrar segja frá fólki og fyrirbrigðum í nútímanum.

Ég starfa við framleiðslu heimildamynda og fylgist með því sem kollegarnir eru að bjástra við. En það er ekki bara dans á rósum hjá okkur. Einn helsti dragbítur á framgang heimildakvikmynda er afstaða ráðamanna íslenskra sjónvarpsstöðva. Tvær þeirra, Stöð 2 og Skjárinn, kaupa alls ekki íslenskar heimildakvikmyndir og Sjónvarpið borgar smánarlegar upphæðir fyrir sýningarréttinn. Einnig virðist sú stefna ríkjandi þar að nú skuli fækka sýningum á íslenskum heimildamyndum. Þessi stefna varð fyrst merkjanleg árið 2007 og virðist halda áfram. Stefna RÚV gengur þvert á þá þróun sem hófst um aldamótin og er nú að skila mörgum frábærum kvikmyndum. Það gæti farið svo að stefna forráðamanna RÚV og annarra sjónvarpsstöðva verði til þess að heimildamyndagróskan stöðvist. Það tekur mörg ár að ná upp dampi í starfsgreininni en það þarf ekki nema skammsýni og stefnuleysi í stuttan tíma til að drepa allt í dróma.

Heimildamyndir eru oft framleiddar við mjög erfið skilyrði og margar ná ekki landi í fjármögnun. Myndin um Breiðavíkurdrengina, stórmerkilegt átak til að opna falin kaun þjóðfélagsins, skilur aðstandendur eftir með töluverðar skuldir. Kvikmyndin um Bobby Fischer og Sæma rokk er gerð án styrkja frá Kvikmyndamiðstöð. Hún er fullgerð vegna ótrúlegrar þrjósku eins manns og aðstoð vina og kollega.

Nú eru í vinnslu nokkrar heimildamyndir um hrunið og búsáhaldabyltinguna.  Enginn miðill er fær um að flytja þjóðinni nýja og raunhæfa sýn á atburði stundarinnar og tengslin við fortíðina líkt og góð heimildakvikmynd gerir. Draumalandið er dæmi um slíka kvikmynd. Það eru ekki allir sammála því sem þar er skellt fram, en myndin fær alla sem hana sjá til þess að hugsa alvarlega um þá pólitík sem hér hefur grasserað undanfarna áratugi. En íslenskir heimildamyndagerðarmenn einskorða sig ekki við eigið land lengur. Í klippitölvunum eru myndir sem segja frá litrófi mannlífsins frá Ólafsfirði til Kazakhstan, frá Berlín til Borgarness. Það er mikill hugur í konum og körlum sem vinna við heimildamyndir og þjóðin sér þess merki núna og enn frekar á næstunni. En eins og fyrr segir – það má ekki eyðileggja þessa sókn með skammsýni og skorti á menningarstefnu.

Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna