Mikill niðurskurður fyrirhugaður!

Framlög til kvikmyndagerðar í Fjátlögum 2010

Mikill niðurskurður fyrirhugaður!

 

Fjárlög ríkisins 2010 voru lögð fram í nýliðinni viku og eins og við var að búast þá einkennast þau af því ástandi sem hér ríkir í efnahagsmálum. En fyrir kvikmyndagerðarmenn er það sérstaklega alvarlegt hversu áætlaður niðurskurður í framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar er langt umfram það sem almennt er áætlað að skerða vegna menningarmála. Samanburður á niðurskurði hjá Kvikmyndamiðstöð og öðrum stofnunum sýnir hversu furðulegar þessar aðgerðir gagnvart KMÍ eru:

 

Stofnun                                  2010                2009                Breyting

Þjóðleikhúsið                           698,3               738,2               – 5,41%

Íslenski dansflokkurinn            119,4               115,9               +3,02%

Sinfóníuhljómsveit Íslands      625,1               646,1               – 3,25%

Listasafn Íslands                     160,9               164,6               – 2,25%

Þjóðminjasafn                         404,8               426,3               – 5,04%

Listasjóðir                                368,1               366,8               +0,35%

Kvikmyndamiðstöð                 463,5               698,2               -33,62%

 

Árið 2006 gerði ríkið samning við félög kvikmyndagerðamanna um markvissa uppbyggingu kvikmyndagerðar með hækkun árlegra framlaga í kvikmyndasjóð til ársins 2010. Öllum var ljóst eftir hrunið að ekki yrði mögulegt að framfylgja þeim samningi og þess vegna voru framlög til KMÍ 2008 um 15% minni en áætlað var. En sú tillaga sem nú liggur fyrir gengur lengra og færir framlög til KMÍ aftur fyrir þá stöðu sem var fyrir gerð samningsins.

 

Formenn fagfélaga kvikmyndagerðarmanna hafa setið á fundum undanfarna daga og rætt ástandið og hvernig beri að berjast gegn þessum furðulegu niðurskuðrarhugmyndum. Enn hafa engin svör borist frá ráðamönnum sem geta skýrt það hvers vegna kvikmyndagerðin er tekin svona sérstaklega fyrir og skal bera þennan þunga kross.

 

Það er löngu sýnt og sannað að kvikmyndagerð er arðbær fjárfesting fyrir ríkið.

Í bréfi frá formönnum félaganna til Menntamálaráðherra segir m.a.:

„ Verðmætamyndun sú sem felst í kvikmyndagerðinni er óumdeilanleg. Gott dæmi er sjónvarpssjóðurinn, sem þegar hefur sannað sig. Tiltölulega lítið framlag ríkisins hefur komið af stað

 

ríkulegri dagskrágerð, sem bæði hefur notið vinsælda hér heima fyrir og í mörgum tilvikum náð út fyrir landsteinana.

Skýrsla Aflvaka frá því rétt fyrir aldamót gaf ótvírætt til kynna að ríkið hefði ávinning af stuðningi við kvikmyndagerð í landinu. Sama mun koma fram í nýlegri skýrslu til Iðnaðarráðuneytisins, enda voru endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar þá hækkaðar upp í 20%.“

 

Stjórn SIK hefur ályktað um málið og þar segir m.a.:

„Það eru yfir 100 ársverk í húfí í kvikmyndaiðnaðinum ef fyrirhugaður niðurskurður nær fram. Kvikmyndaiðnaðurinn er mannfrek sprotagrein sem á inni mikla vaxtarmöguleika. Framlög úr Kvikmyndasjóði er grunnur að allri frekari fjármögnun og fyrsta skrefið í að meðaltali sexfalda framlag kvikmyndasjóða. Ef ekki er stuðningur heimalands við verkefni, eiga þau nær engan möguleika á að sækja erlent fjármagn til fjármögnunar.

Reikna má með að þessi niðurskurður þýði að tvær kvikmyndir, tvær sjónvarpsþáttaraðir og að minnsta kosti. 4-5 heimilda- og stuttmyndir

verði ekki framleiddar á næsta ári verði af þessum niðurskurði.

Fjármagn sem sett er í kvikmyndasjóðina skilar sér að fullu aftur til ríkis í formi skatta. Að auki er menningarverðmæti sem er skapað er með kvikmyndagerð ómetið.“

 

Niðurskurðarhugmyndir sem byggjast á vanþekkingu

Það verður ekki séð að þeir sem leggja til að kvikmyndagerð fái slíkt kjaftshögg hafi minnstu hugmynd um það sem hefur verið að gerast á þessum vettvangi á undanförnum árum. Með uppbyggingu kvikmyndasjóðs skv. samkomulaginu frá 2006 hefur kvikmyndagerð vaxið og elfst. Fleiri myndir eru framleiddar og landsmenn verða þess kyrfilega varir bæði í fjölda sjónvarpsséría, metnaðarfullra heimildamynda og bíómynda sem eru sýndar við góða aðsókn hér heima og fara víða um heimsbyggðina. Nýlegar tölur frá Gallup um áhorf á íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna að íslenskt kvikmyndaefni nær þreföldu og fjórföldu áhorfi í smanburði við sambærilegt erlent efni. Jólin 2008 voru íslenskar kvikmyndir í toppsætum áhorfs hjá sjónvarpsstöðvunum hér, 5 af 10 vinsælustu dagskráliðunum voru íslenskar kvikmyndir.

Æ stærri hluti framleiðsluferils kvikmynda hefur að undanförnu verið unnin hér heima og hafa mörg fyrirtæki fjárfest í stafrænum búnaði sem gerir þetta mögulegt. Með niðurskurði hjá KMI er þessi vaxtarsproti í mikilli hættu og afkomumöguleikar fyrirtækja sem hafa fjárfest nýlega minnka stórlega.

 

Að skjóta sig í fótinn

Á krepputímum verður að leita allra leiða til að bæta stöðu landsins, m.a. með bættri ímynd og fjölgun ferðamanna. Kvikmyndir eru eitt öflugasta vopnið í þessari viðleitni.

Fjöldi erlendra kvikmyndafyrirtækja koma hingað á hverju ári til þess að nýta þá aðstöðu sem hér býðst. Árangurinn er m.a. innstreymi gjaldeyris og atvinna innlendra fagmanna. Fari svo að innlend framleiðsla minnkar þá er hætt við að fagmenn geti ekki framfleytt sér hér á landi og þá verður annaðhvort að flytja inn erlenda fagmenn eða þá að erlendu fyrirtækin hætta við að koma hingað sökum þess að nauðsynleg aðstaða er ekki fyrir hendi. Eins og fram er komið þá skilar hver króna sem er lögð til kvikmyndagerðar sér margfalt til baka til ríkisins í formi skatta af starfseminni, tekna frá ferðamannaþjónustu ofl. Það er því hrein skammsýni að ráðast með þessum hætti gegn kvikmyndagerð í landinu – það munu allir tapa og ekkert græðast til að létta landsmönnum lífið á þessum erfiðu tímum.

 

Hjálmtýr Heiðdal

– – –

Höfundur er formaður FK