Fáar en mikilvægar menningamilljónir
Hefð okkar Íslendinga í kvikmyndamenningu og iðnaði er, eins og margt í okkar samfélagi, yngri en annarra evrópuþjóða.
Þó hafa íslenskar kvikmyndir forskot á íslenska fjámálastarfsemi bæði í árum og orðspori.Við kvikmyndagerðafólk höfum aldrei ætlað okkur að sigra Evrópu eða Ameríku,við höfum rétt eins og íslensk ljóðskáld, tónlistar-og myndlistarmenn, rithöfundar og leikhúsfólk reynt að spegla íslenskt samfélag á margvíslegan hátt.
Íslenskar kvikmyndir, tónlist og bókmenntir hafa laðað að fleiri ferðamenn en öll átaksverkefni stjórnvalda í ferðamennsku. Þannig er það.
Í nútímasamfélagi þar sem myndmiðillinn skiptir öllu máli, er gríðarlega mikilvægt að börnin okkar horfi á íslenskt efni og læri að lesa og meta íslenskt myndmál.
Það er á ábyrgð okkar allra að standa vörð um þá ágætu menningu sem við eigum og þar eru kvikmyndir afar mikilvægur þáttur.
Það er líka mikilvægt að kvikmyndir og sjónvarpsþættir okkar endurspegli þjóðfélag þar sem helmingurinn er kvenkyns og því mikilvægt að raddir kvenna hljómi sterkar og oftar en verið hefur.
Þegar kemur að menningu og stuðningi við hana heyrast oft þær raddir að listamenn (sama úr hvaða listagrein þeir koma) séu styrkþegar og afætur, fólk sem vinni varla en þiggi mikið. Þetta er lífsseigur og leiður misskilningur sem er kannski bara hægt að leiðrétta með því sem þjóðin er alin upp í að skilja þ.e. vísun í milljónir eða milljarða.
Árið 2004 gaf Viðskipta- og hagfræðdeild Háskóla Íslands út bók eftir Dr. Ágúst Einarsson prófessor um hagræn áhrif tónlistar. “Hagræn áhrif tónlistar” er fyrsta bók sinnar tegundar á Íslandi. Í ritinu lýsir Ágúst því hvernig tónlist er umtalsverður þáttur í hagkerfi þjóðarinnar. Verið er að vinna að svipaðri samantekt um hagræn áhrif íslenskrar kvikmyndagerðar.
Að gerð einnar kvikmyndar kemur fjöldinn allur af einstaklingum og fyrirtækjum. Stór hluti þeirra smáu og meðalstóru fyrirtækja sem þjónusta kvikmyndaiðnaðinn eru á landsbyggðinni. Skemmst er að minnast stórmynda eins og Bjólfskviðu, Batman Begins og Tomb Raider sem skildu eftir hundruða milljóna á suð-austurlandi, auk þeirra mynda og fjölda auglýsinga sem myndaðar hafa verið um allt land.
Ástæður fyrir því að ákveðið er að taka þessar myndir upp á Íslandi, eru að hér er hægt að ganga að vel hæfu starfsfólki í allar stöður og landslagið hentar. Ef fram fer sem horfir verður líklega ekki hægt að ganga að góðu fagfólki þó landslagið verði (vonandi) enn á sínum stað. Það verður hins vegar ekki eins eftirsóknarvert að koma hingað ef þekking á kvikmyndaiðnaði er ekki til staðar-það er jú til svo afar mikið af fínu landslagi á henni jörð þar sem ekki er hægt að ganga að fagmennsku í kvikmyndaiðnaði.
Með 35% niðurskurði í fjárlögum á framlögum til Kvikmyndasjóðs og fjandsamlegri dagskrárstefnu RÚV gagnvart innlendu efni, er ljóst að verið er að dýpka enn frekar áhrif kreppunnar svo ekki sé minnst á þau skaðlegu áhrif sem niðurskurðurinn hefur á menningu okkar Íslendinga.
Í kvikmyndagerð starfa í dag um 500 manns, rafvirkjar, smiðir, búninga-og förðunarfólk, tæknifólk í upptökum og eftirvinnslu, leikmyndafólk, leikstjórar, framleiðendur, tónlistafólk, fólk í ferðaþjónustu, kvikmyndatökufólk, veitingafólk, , endurskoðendur, kranaleigur, lögfræðingar, skrifstofufólk, leikarar og fleiri.
Við vitum öll að nú er tími niðurskurðar og að sú stjórn sem tók við fyrir ári hefur aðeins getað brugðist við þeirri vondu stöðu sem hún var skilin eftir með.
Ég vil ekki að skorið verði frekar niður í mennta- heilbrigðis- eða félagskerfinu, en fullyrði að 35% niðurskurður á kvikmyndasjóði verði aðeins til þess að dýpka kreppuna og auka álag á mennta-heilbrigðis-og félagskerfið.
Við, kvikmyndagerðafólk, viljum vinna, laða að erlendar tekjur og standa vörð um menningu okkar á þessum viðsjárverðu tímum.
– – –
Hrönn Kristinsdóttir – höfundur er kvikmyndaframleiðandi