Óskynsamleg menningar- og efnahagspólitík
Árið 2006 var undirritað samkomulag milli fjármálaráðherra og menntamálaráðherra annars vegar og félaga í kvikmyndagerð hinsvegar. Samkomulagið gerði ráð fyrir uppbyggingu kvikmyndasjóða á næstu 4 árum úr um 372 m króna í 700 m árið 2010. Þessi samningur gerði kvikmyndaiðnaðinum kleift að gera lengri tíma áætlanir og þar með hefja nauðsynlega endurnýjun og fjárfestingu m.a. í stafrænum búnaði og tækjum í ljósi þess að langtíma samningur var kominn á.
Á fjárlögum 2009 var samningurinn skorinn niður um 5%, eitthvað sem kvikmyndagerðin gat sætt sig við í ljósi aðstæðna og í samræmi við nauðsynlegan samdrátt í opinberum útgjöldum. Í fjárlögum 2010 var hinsvegar skorið niður um 35% frá því sem samningurinn hafði gert ráð fyrir. Greinin var flutt aftur um 10 ár. Þessi niðurskurður á eina menningargrein var ekki í neinu samræmi við annað á fjárlögum í mennta- og menningarmálum. Árið 2010 voru heildarframlög til mennta- og menningarmála nær óbreytt að krónutölu milli ára. Hvergi sást viðlíka niðurskurður og í kvikmyndasjóðum.
Félög í kvikmyndagerð gáfu út skýrslu í fyrra um hvernig kvikmyndaverk eru fjármögnuð þar sem m.a. var sýnt fram á að hver króna sem ríkið leggur í kvikmyndagerð skilar sér í fimm faldri veltu og laun og launatengdar greiðslur stæðu að fullu að baki framlagi ríkisins til kvikmyndasjóða. Áætlað veltutap greinarinnar var fyrirsjáanlegt um 5 milljarðar á 4 árum eftir að sjóðir voru skornir niður og allt að 100 störf myndu tapast. Allt þetta er nú að koma á daginn.
Bókin „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“ eftir Dr. Ágúst Einarsson er nýkomin út. Ágúst hefur ásamt samstarfsfólki farið í víðtæka greiningarvinnu, m.a. með því að fara í gegnum ársreikninga allra fyrirtækja í kvikmyndagerð. Niðurstöðurnar eru mjög skýrar og eru hinu opinbera mun hagfelldari en áður var talið. Ríkissjóður sexfaldar tekjur af sínu framlagi til kvikmyndasjóða – árlega!
Kvikmyndaiðnaðurinn stendur núna eftir 3 ára og yfir hálfs milljarðs króna niðurskurð kvikmyndasjóða með neikvætt eigið fé. Ríkissjóður hefur orðið af meira en þremur milljörðum í tekjur og yfir 100 manns hafa tapað störfum sínum, með tilheyrandi kostnaði sem leggst á ríkissjóð. Framundan er síðan minna af íslensku kvikmyndaefni fyrir Íslendinga á íslensku.
Það sér það hver sem vill að þetta er hvorki skynsamleg menningarpólitík né efnahagspólitík. Nú er lag að viðurkenna að mistök voru gerð og snúa á rétta braut.
Hilmar Sigurðsson
framleiðandi og ritari SÍK – Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda