SÍK fagnar samþykktu frumvarpi

Kvikmyndaframleiðendur fagna nýsamþykktu frumvarpi um hækkun á endurgreiðslum í 25% sem taka munu gildi 31. desember næstkomandi.  Endurgreiðsluhlutfallið tekur til alls framleiðslukostnaðar sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Annað nýmæli í lögunum er að horfið er frá því að nauðsynlegt sé að stofna sérstakt fyrirtæki fyrir hvert kvikmyndaverkefni heldur er fullnægjandi að bókhald og uppgjör hvers verkefnis sé sérstaklega aðgreint frá öðrum verkefnum þannig að ávallt sé unnt að greina þann kostnað sem tilheyrir hverju verkefni fyrir sig. Þetta er dæmi um hagræði sem skilar sér í minni tilkostnaði fyrir fyrirtækin.

Kristinn Þórðarson, formaður SÍK, segir það mikið fagnaðarefni fyrir íslenska kvikmyndagerð að hækkun endurgreiðslurnar í 25% hafi orðið að lögum Alþingis í gær. „Þessi breyting gerir Ísland aftur samkeppnishæft við önnur lönd sem bjóða sambærilegar endurgreiðslur og mun styrkja enn frekar íslenska kvikmyndagerð. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, og alþingismenn allra flokka eiga þakkir skyldar fyrir framsýni og skilning á mikilvægi þessarar hækkunar.“