Úrklippur

Milljarðar tapast og hundrað störf glatast 

Úrklippa úr Fréttablaðinu – 8. október 2009: Íslensk kvikmyndagerð er í mikilli hættu að mati forsvarsmanna atvinnugreinarinnar ef boðaður niðurskurður í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður að veruleika. 

 

Íslensk kvikmyndagerð er í mikilli hættu að mati forsvarsmanna atvinnugreinarinnar ef boðaður niðurskurður í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður að veruleika. Hátt í hundrað störf munu glatast og veltan getur dregist saman um rúma tvo milljarða.

Ari Kristinsson, formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðanda, og Baltasar Kormákur gengu á fund menntamálaráðherrans Katrínar Jakobsdóttur á þriðjudagsmorgun og kynntu henni tölur úr kvikmyndaiðnaðinum. Ari viðurkennir að þeir hefðu auðvitað átt fyrir löngu að vera búnir að safna saman þessum upplýsingum; þær hafi ekki legið fyrir áður og því hafi ekki verið hægt að kynna sér þær. Hann hefur fulla trú á því að þegar menn sjái þetta svona svart á hvítu snúist þeim hugur. “Við höfum alltaf talið okkur hafa svo góðan málstað að verja og héldum að allir töluðu okkar máli þannig að það þyrfti ekkert að fara út í svona reikninga.”

Tölurnar sem Ari vísar til eru nokkuð forvitnilegar. Síðustu tvö ár hefur ársvelta sjónvarps- og kvikmyndaiðnarins numið rúmum þrettán milljörðum íslenskra króna og hann hefur skapað vel yfir sex hundruð störf. Árið 2008 velti íslenski kvikmyndaiðnaðurinn 6,6 milljörðum samkvæmt bráðabirgðatölum og skapaði þrjú hundruð störf. Í ár er gert ráð fyrir að veltan í íslenskri sjónvarps- og kvikmyndagerð verði 6,8 milljarðar og þegar árið er á enda muni 320 manns hafa haft atvinnu af því að starfa við sjónvarps-og kvikmyndaframleiðslu.

Ari segir að veltan í kvikmyndabransanum muni dragast saman um 2,3 milljarða og að hátt í hundrað störf muni glatast ef niðurskurðurinn verður að veruleika. Ef allt það fólk sem muni missa vinnuna fari síðan á atvinnuleysisbætur muni ríkið hvort eð er greiða þeim jafnháa upphæð og skorin verður niður. “Í menningarmálum er skorið niður um rúmlega þrjú hundruð milljónir samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi og þeir hafa farið þá leið að skera niður sjóði í stað stofnana. Mér þykir það gott og gilt að ekki sé skorið verulega niður í menningarmálum en mér finnst frumvarpið sýna atvinnugreininni óvirðingu,” segir Ari. Hann tekur fram að niðurskurðurinn sé enn ekki orðinn að veruleika og hann reiknar fastlega með að einhverjar breytingar verði gerðar. Hann segir að óvænt samstaða hafi skapast innan atvinnugreinarinnar, aðilar innan bransans sem hafi kannski ekki ræðst við í áratugi tali nú saman og mikill hugur sé í mönnum. “Við höfum þjappað okkur saman og ætlum að kynna okkar málstað,” segir Ari.

Hann segir að með þátttöku erlendra sjóða geti fjórar til fimm íslenskar kvikmyndir í fullri lengd orðið að veruleika á ári og fjórar leiknar sjónvarpsþáttaraðir. Ef framlag Kvikmyndasjóðsins minnki hafi það veruleg áhrif á möguleika íslenskra leikstjóra á að ná í styrki erlendis. Framlag íslenska ríkisins sé kannski ekki mikið en ákaflega mikilvægt og raunar frumforsendan fyrir því að verkið fari af stað. “Og það sem meira er, ef þetta verður raunin er nánast ómögulegt fyrir unga leikstjóra að koma verkum sínum á framfæri,” útskýrir Ari og tekur fram að íslenska ríkið tapi ekkert á því að styrkja íslenska kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn. “Nei, ríkið fær engan bakreikning ef verkið gengur illa heldur lendir það allt á framleiðandanum. Við teljum okkur því vera hagstæða stærð og viljum að það sé komið fram við okkur eins og hina.” freyrgigja

@frettabladid.is

Kvikmyndir skornar niður

 

Ágúst Guðmundsson skrifar um kvikmyndagerð Það kemur verulega á óvart hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni í landinu í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi.

Umræðan – úrklippa úr Fréttablaðinu 8. október 2009

Ágúst Guðmundsson skrifar um kvikmyndagerð

Það kemur verulega á óvart hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni í landinu í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Niðurskurður þar er tæp 34%. Það mætti halda að kvikmyndagerðin hafi verið meira til óþurftar en aðrar starfsgreinar.

Til samanburðar má nefna að framlög til Sinfóníuhljómsveitarinnar lækka um 3,25%, til Listasafns Íslands um 2,25%, og nýendurráðinn þjóðleikhússtjóri fær sérstakt hrós fyrir að vita hvernig bregðast eigi við 5,41% niðurskurði til sinnar stofnunar. Hins vegar verður að fyrirgefa íslensku kvikmyndafólki það að hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að höndla þriðjungs niðurskurð.

Öll skiljum við að þörf er á aðhaldi og niðurskurði. Þessi stefnubreyting gagnvart kvikmyndaiðnaðinum er bara einum of brött og á eftir að hafa sérlega óheppileg áhrif. Íslenskar kvikmyndir draga fé að frá útlöndum, framleiðendur fá aldrei meira en 50% af kostnaðinum frá því opinbera, hitt þarf að koma annars staðar frá. Erlendir sjóðir hafa veitt milljónatugum í innlenda kvikmyndagerð – og á því verður hlé komi ekkert framlag frá hinu opinbera. Erlenda framlagið kemur ekki nema fyrst sé lagt í verkefnin á heimaslóð. Menn skyldu gæta að því að hér er verið að slátra mjólkurkú, ekki geldri kvígu.

Niðurskurðurinn kemur ekki aðeins niður á bíómyndum og heimildarmyndum, heldur líka leiknu sjónvarpsefni. Allir leiknir sjónvarpsþættir fá verulegt fjármagn úr Sjónvarpssjóði Kvikmyndamiðstöðvar. Án þess framlags telja sjónvarpsstöðvarnar sig ekki geta staðið að slíkri framleiðslu. Efni á borð við Fangavaktina og Hamarinn mun þá heyra til liðinni tíð.

Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpunin í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Enn fremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt selji Ísland betur en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.

Það er afar misráðið að setja þessa ákveðnu starfsstétt á ís um ófyrirséða framtíð – og vitaskuld í hreinni þversögn við samning ríkisins við kvikmyndageirann, sem gerir ráð fyrir árlegri aukningu á fjárfestingu ríkisins í kvikmyndagerðinni. Í krafti samningsins fóru sprotafyrirtæki á stúfana og fjárfestu m.a. í stafrænni tækni svo að nú má vinna hér mun fleiri þætti framleiðslunnar en á dögum filmunnar. Á erfiðum tímum má fyrirgefa hringl með prósentutölur, en öðru máli gildir um svo drastíska ráðagerð sem þessa, sem líkleg er til að kreista líftóruna úr þessum fyrirtækjum.

Enn hafa ekki heyrst röksemdir fyrir því að þessi eina stétt eigi að þola meiri niðurskurð en aðrar á landinu. Á meðan ástæður þess eru í móðu verður að gera þá kröfu að þessi málsmeðferð, sem líklega má rekja til vankunnáttu eða flumbrugangs, verði endurskoðuð svo að ekki verði búið verr að kvikmyndagerðinni en að öðrum starfsgreinum landsins.

Höfundur er forseti BÍL.

 

Kvikmyndagerð slátrað

Úrklippa úr Fréttablaðinu – 3. október 2009:

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru æfir yfir þeim niðurskurði sem boðaður er á framlögum ríkisins til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Slátrun, segir Ari Kristinsson, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna.

Í fjárlagafrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar kemur fram að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði skorin niður um 206 milljónir, sem samsvarar þrjátíu prósenta niðurskurði. Þeir kvikmyndagerðarmenn sem Fréttablaðið ræddi við í gær segja þennan niðurskurð í engu samræmi við neitt. Aðrar listgreinar séu ekki látnar þola slíka slátrun. Ragnar Bragason leikstjóri veltir því fyrir sér hvort fjárlaganefndin hafi ekki kynnt sér þær gjaldeyristekjur og þá landkynningu sem íslenskum kvikmyndum hafi svo oft verið hrósað fyrir. “Það hefur verið sýnt fram á það að við hverja krónu sem ríkið leggur til kvikmyndagerðar skapist tólf til fimmtán krónur,” segir Ragnar, sem er þrátt fyrir allt bjartsýnn á að frumvarpið verði ekki samþykkt með þessum niðurskurði. “Ég bara trúi því ekki, þetta hlýtur að verða endurskoðað.”

Baltasar Kormákur segist ekki eiga orð yfir þessum niðurskurðartillögum. “Þetta er úr samhengi við allt, það er verið að leggja íslenska kvikmyndagerð í rúst. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir menningarlegu framlagi íslenskrar kvikmyndagerðar; þarna eru yfirleitt ný íslensk handrit, ný íslensk tónlist. Það er bara verið að taka eina atvinnugrein og fórna henni á altari Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.”

“Þetta er eins og blaut tuska í andlitið og mér þykir þessi niðurskurður alveg ofsalega skrýtinn. Það er engin sem þarf að þola jafnmikinn niðurskurð hlutfallslega,” segir Ari Kristinsson, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna. Hann er ómyrkur í máli og telur að niðurskurður af þessu tagi eigi hreinlega eftir að leggja íslenska kvikmyndagerð í rúst. “Kvikmyndir eru fjármagnaðar með vilyrðum fram í tímann og við vitum ekki hvort þessi niðurskurður muni bitna á þeim sem hafa verið að safna peningum erlendis fyrir næstu verkefni.”

Katrín Jakobsdóttir, mennta-og menningamálaráðherra, segir að vissulega sé þetta mikill niðurskurður og hún býst fastlega við því að miklar umræður verði um þennan lið fjárlagafrumvarpsins í ljósi þess. “En auðvitað verður líka að horfa til þess að þetta er erfitt fjárlagafrumvarp og það er allt undir,” segir Katrín, sem segist skilja vel áhyggjur kvikmyndagerðarmanna af stöðu mála.

Hún tekur skýrt fram að þarna sé ekki verið að horfa til listgreinarinnar sem slíkrar og reiknar með að menn muni horfa til þess að íslensk kvikmyndagerð taki ekki bara við peningum heldur skili hún líka tekjum aftur í ríkiskassann. “Ég skil vel að mönnum lítist ekkert á blikuna, ég á fund með nokkrum kvikmyndagerðarmönnum í næstu viku og eins og ég sagði reikna ég fastlega með því að þetta verði tekið til umræðu inni á þingi.”

freyrgigja

@frettabladid.is