Metum listina að verðleikum – njótum hennar löglega

Hrundið hefur verið af stað átaki til þess að hvetja Íslendinga til að nota löglegar netsíður sem skila greiðslum til listamanna þegar verk þeirra eru sótt á netið. Könnun sem gerð var hérlendis árið 2011 bendir til þess að tæpur helmingur allrar tónlistar og um 75% allra kvikmynda og sjónvarpsþátta sem eru í umferð hér á landi séu fengin með ólögmætum hætti og  án þess að greitt hafi verið fyrir efnið.  Að átakinu standa höfundar, flytjendur og framleiðendur íslenskrar tónlistar, kvikmynda og bóka. Megintilgangur átaksins er að vekja athygli á því að Íslendingar geta nálgast afþreyingu á netinu eftir fjölmörgum löglegum leiðum. Fjöldi listamanna leggur átakinu lið. 

Á heimasíðu átaksins www.tonlistogmyndir.is er að finna margvíslegan fróðleik um þá löglegu valkosti sem neytendum standa til boða. Jafnframt eru þar gögn um umfang og afleiðingar ólöglegrar dreifingar á efni á undanförnum árum, m.a. kannanir sem Capacent hefur gert á neyslu og niðurhali tónlistar og kvikmynda. Á vefsíðunni er einnig hægt að skoða skilaboð nokkurra landsþekktra listamanna til þeirra sem nálgast tónlist, kvikmyndir og bækur í gegnum netið.

Dreifing hugverka hefur aukist stórlega á netinu á síðustu árum.  Jafnframt því sem þessi nýja tækni hefur opnað ýmsa spennandi möguleika hefur hún einnig á sér aðra og dekkri hlið. Ólögleg afritun og dreifing á efni hefur aukist mjög og ógnar afkomu fjölda listamanna og annarra sem vinna við útgáfu og dreifingu hugverka.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun.  Þannig dróst sala á erlendum hljómdiskum hér á landi saman um 77% á árunum 2001 til 2011. Eftir jafna og góða aukningu í sölu á íslenskum plötum frá 2001 til 2006 fór salan aftur minnkandi  og árið 2011 seldust um 5% færri íslenskar plötur en árið 2001. Könnun sem gerð var hérlendis í mars 2011 bendir til þess að tæpur helmingur allrar tónlistar sem Íslendingar sækja sér sé fenginn með ólögmætum hætti. Ólögleg dreifing á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er enn stórfelldari en samkvæmt könnuninni horfðu Íslendingar hátt á í 12 milljón sjónvarpsþætti og kvikmyndir á þessum tíma, en greiddu aðeins fyrir eina mynd eða þátt af hverjum fjórum.

Hvatningarskilaboð þessa átaks munu á næstunni birtast landsmönnum í fjölmiðlum og kvikmyndahúsum. Aðstandendur átaksins vænta þess að umræða um þessi mál aukist í kjölfarið og að vitundarvakning verði á meðal almennings um áhrif ólöglegs niðurhals á skapandi greinar.

Að hvatningarátakinu standa eftirfarandi samtök:

SMÁÍS – Samtök myndrétthafa á Íslandi, SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF – Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, SFH – Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda og Félag íslenskra bókaútgefenda.

Nokkrar spurningar og svör um notkun hugverka á netinu.

Hvers vegna er farið í þetta hvatningarátak núna?

Það er eðlilegt að miðla upplýsingum um staðreyndir þessa máls til Íslendinga. Við teljum að megin þorri ólöglegs niðurhals, fari fram án þess að menn geri sér almennt grein fyrir að þeir séu að brjóta rétt á höfundum, flytjendum og útgefendum. Íslendingar eru upp til  hópa heiðarlegt fólk sem vill standa rétt að málum. Við teljum upphaf nýs árs kjörinn tíma fyrir átak sem þetta.

Er ólöglegt niðurhal á netinu stórt vandamál fyrir listamenn?

Þetta er án efa eitt af stærstu hagsmuna- og réttindamálum sem hinar skapandi greinar glíma við um þessar mundir. Könnun sem gerð var hérlendis í mars 2011 bendir til þess að tæpur helmingur allrar tónlistar á netinu sé fenginn með ólögmætum hætti. Árið 2011 horfðu Íslendingar á hátt í 12 milljón sjónvarpsþætti og kvikmyndir, en greiddu aðeins fyrir eina mynd eða þátt af hverjum fjórum.

Í ljósi þess að plötusala hér á landi hefur verið mjög góð síðustu tvö ár, er þá hægt að halda því fram að íslenskir tónlistarmenn hafi í raun orðið fyrir tjóni vegna ólöglegrar dreifingar tónlistar?

Staðreyndin er sú að mjög fáir titlar hafa borið upp söluna þessi síðustu ár. Í heild var sala íslenskra plata í eintökum talið 5% minni 2011 en á árinu 2001, þrátt fyrir að neysla á tónlist hafi almennt aukist.

Í dag er mjög erfitt fyrir höfunda og flytjendur að fá plötur útgefnar, og útgefendur eru sérstaklega varkárir þegar kemur að útgáfu efnis eftir óþekkta tónlistarmenn. Tónlistarmenn þurfa því í mun meiri mæli en áður að gefa sjálfir út eigið efni með tilheyrandi fjárhagslegri áhættu. Hafa ber í huga að einungis um 10% af útgefnum titlum skilar hagnaði og afleiðingin er m.a. sú að mikið af því efni sem gefið er út í dag er hálfgerð „endurvinnsla“ á eldra efni þekktra tónlistarmanna.

Tónlistarmenn í dag þurfa því í ríkari mæli en áður að reiða sig á innkomu af tónleikum frekar en plötusölu, en hafa verður í huga að slíkt hentar alls ekki öllum og kemur sérstaklega illa við þá höfunda sem ekki eru jafnframt flytjendur af eigin efni, heldur hafa fremur einbeitt sér að því að semja fyrir aðra.

Hefur tjón sem þessi ólögmætu not á netinu valda verið metið?

Já það hefur verið gert. Störf bæði tónlistarmanna, kvikmyndagerðarfólks og annarra sem tengjast greinunum hafa tapast enda hafa  fjárhagsleg skilyrði fyrir nýsköpun, þróun og framleiðslu verkefna skaðast verulega. Sama má segja um almannahagsmuni þar sem ríkissjóður verður af miklum  tekjum vegna minnkandi virðisaukaskattstekna og annarra skatta sem greiðast ættu af réttum viðskiptum með þetta efni. Tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum nemur a.m.k. 300 milljónum króna árlega.

Í tónlistargeiranum á Íslandi er smásöluvirði verka sem miðlað er í gegnum niðurhal og ólöglega dreifingu um 1,7 milljarðar á ári en áætlað er að beint sölutap nemi tæpum 300 milljónum króna, en samkvæmt könnun Capacent á Íslandi frá því í mars 2011 hefðu 16,8 % þeirra sem hala niður efni keypt efnið ef ekki væru ólöglegar leiðir í boði.

Í kvikmyndageiranum nemur smásöluvirði verka sem miðlað er í gegnum niðurhal og ólöglega dreifingu tæpum 9 milljörðum en áætlað beint sölutap nemur tæpum 1,4 milljörðum króna, en samkvæmt sömu könnun Capacent hefðu 17,9% af þeim sem hala niður efni, keypt efnið ef ekki væru  ólöglegar leiðir í boði. Í þessum tölum er ekki innfalið tap vegna hugbúnaðar, tölvuleikja, miðasölu í kvikmyndahúsum eða áskriftarsjónvarps. Hér er því um gífurlega tekjuskerðingu að ræða fyrir þessar greinar, fyrir ríkissjóð og jafnframt fyrir hið íslenska hagkerfi.

Eru frekari aðgerðir í undirbúningi?

Það er stöðugt unnið að því að gæta réttar tónlistarfólks og kvikmyndagerðarmanna og annarra innan hinna skapandi greina og þannig verður það áfram.

Hverjir standa að átakinu?

–          Að átakinu standa eftirtalin samtök og meðlimir þeirra:Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar – STEF,

–          Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda – SFH.

–          Samtök myndrétthafa á Íslandi – SMÁÍS

–          Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK.

–          Félag íslenskra bókaútgefenda.

Eru það eingöngu höfundar sem tapa á ólöglegu niðurhali eða verða flytjendur líka fyrir tjóni?

Flytjendur eiga líka mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli og sömuleiðis, útgefendur efnisins, dreifingaraðilar og smásöluaðilar.

 

Er ekki æskilegt, áður en fólk er hvatt til að sniðganga síður sem miðla þessu efni, að geta bent á löglegar leiðir til að hala niður tónlist og myndböndum?

Jú auðvitað er það æskilegt og það teljum við okkur einmitt vera að gera.  Við getum bent á fjölmargar löglegar leiðir til að nálgast yfirgnæfandi meirihluta þeirrar tónlistar og mikið af þeim kvikmyndum og sjónvarpsefni sem  Íslendingar hafa verið að sækja sér ólöglega og án endurgjalds á netið. Eitt af því sem erlendar þjónustuveitur á Internetinu hafa horft til þegar þær taka afstöðu til þess hvort þær eigi að bjóða upp á þjónustu á Íslandi, er hversu stór sjóræningjamarkaðurinn hefur verið hér á landi.  

 

Hvers vegna hefur ekki verið samið við stóra erlenda dreifingaraðila eins og iTunes, Netflix, Sky og aðra um að Íslendingar geti nýtt sér þjónustu þeirra?

Fyrst og fremst vegna smæðar íslenska markaðarins. Það hafa verið gerðar margar tilraunir til að semja um aðgang Íslendinga að erlendum dreifingarsíðum en það hefur verið á brattann að sækja. Þeirri viðleitni verður haldið áfram.

 

Mörg þessara erlendu fyrirtækja, sem amast er við að Íslendingar eigi viðskipti við, eru með samninga við listamenn og greiða fyrir afnot af efni þeirra?  Af hverju mega Íslendingar ekki skipta við þau?

Vegna þess að alþjóðlegir samningar um greiðslur til rétthafa gera ráð fyrir að það sé samið um afnot á hverju svæði sérstaklega. Á meðan slíkir samningar hafa ekki verið  gerðir fyrir Ísland getum við ekki nýtt þessa þjónustu á löglegan hátt.  Þá má benda á að ekki er verið að greiða skatta af slíkri þjónustu hérlendis þrátt fyrir að þjónustan sé í raun veitt hér. Þar sem Ísland er háskattaland, gerir slíkt samkeppnisstöðu innlendra þjónustuveita lakari.

 

Ganga aðgerðir samtaka eins og til dæmis SMÁÍS  ekki fyrst og fremst út á að verja hagsmuni milliliða og fárra dreifingaraðila, frekar en að það sé verið að verja listamennina sjálfa?

Aðgerðir sem greipið hefur verið til hingað til ganga fyrst og fremst út á að tryggja að farið sé að réttum lögum og reglum og að verja hagsmuni rétthafa, sem að í tilviki SMÁÍS eru innlendar sjónvarpsstöðvar, kvikmyndahús og dreifingaraðilar erlendra kvikmynda. Þessir aðilar eru lykilaðilar í að koma framleiddu efni á framfæri hérlendis.

 

Er ekki vænlegra að ná þessum tekjum inn með einhverskonar skattheimtu frekar en að elta notendur uppi eins og glæpamenn?

Sú skoðun á sér vissulega talsverðan hljómgrunn meðal rétthafa en það verður hins vegar að vera pólitískur vilji til að leysa þetta mál með þeim hætti. Þá verður einnig að hafa í huga að jafnvel þótt rétthöfum yrði að einhverju leyti bætt tjón sitt með skattfé, munu rétthafar samt sem áður ekki geta samþykkt ólöglega dreifingu efnis. Þá verður einnig að gæta þess að slík skattheimta setji ekki stein í götu þeirra sem selja afþreyingarefni löglega á Internetinu.

 

Er ekki hætta á að aðdáendur listamanna snúist gegn þeim ef þeir ganga mjög hart fram og eru sífellt að klifa á lögbrotum notenda?

Í þessu hvatningarátaki leggjum við okkur fram um að nálgast þetta á jákvæðan hátt og bendum á þær fjölmörgu löglegu leiðir sem eru í boði og hvetjum til þess að þær séu notaðar. Það eru vissulega dæmi um að einstaka listamenn hafi goldið fyrir að standa vörð um rétt sinn

 

Með stafrænni byltingu hefur miðlun hljóð- og myndskráa gerbreyst. Er ekki eðlilegra að höfundarréttarsamtök lagi sig að breyttum markaði fremur en að ætla að laga markaðinn að sér, rétt eins og gerist í öðrum geirum viðskipta?

Jú þetta er hárrétt athugað og þannig gerum við ráð fyrir að þessi mál muni á endanum leysast. En það tekur tíma að finna bestu lausnina og á meðan verða listamenn og aðrir sem starfa innan hinna skapandi greina fyrir miklu fjárhagslegu tjóni.

 

Hvað eru aðrar þjóðir að gera í þessum málum?
Baráttan erlendis til að tryggja að höfundaréttur sé virtur hefur birst í ýmsum myndum en almennt má segja að alþjóðlega þróunin sé í þá átt að styrkja réttindi listamanna gagnvart óheimilum notum á verkum þeirra á netinu.

  • Í Frakklandi hefur lögfesting hinna svonefndu Hadopi laga skilað miklum árangri í baráttu gegn ólögmætum notum og kynningu á löglegum leiðum á netinu. Á grundvelli laganna sendir Hadopi stofnunin út viðvörunarbréf til einstaklinga sem sækja efni ólöglega á netið. Ef ekki er brugðist við viðvörunum getur stofnunin farið með málið áfram til dómstóla.
  • Í Bretlandi var lögfest svipað kerfi og í Frakklandi, en munurinn var þó sá að þar áttu rétthafasamtök að senda út viðvörunarbréfin. Kerfið er nokkuð kostnaðarsamt og ber rétthöfum að standa straum að stærstum hluta þess kostnaðar. Lögin hafa enn ekki komið til framkvæmda,en stefnt er að því að þeim undirbúningi verði lokið á þessu ári og fyrstu tilkynningar sendar út árið 2014.
  • Í Bandaríkjunum var mikilvægum áfanga náð með samkomulagi milli eins stærsta fjarskiptafyritækisins þarlendis og tónlistarrétthafa um að koma upp viðvörunarkerfi þar sem tilkynningar, viðvararnir og að lokum viðurlögum verður beitt gegn þeim áskrifendum sem ítrekað nota netaðgengið á ólögmætan hátt.
  • Leiðandi írskt fjarskiptafyritæki, Eircom hefur tekið í notkun svipað kerfi með samkomulagi við samtök írskra rétthafa.
  • Í Nýja-Sjálandi og SuðurKóreu hefur slíkt viðvörunarkerfi verið lögfest.
  • Í allmörgum dómsmálum í Evrópu hafa niðurstöður verið rétthöfum í vil, svo sem á Ítalíu, Belgíu, Finnlandi, Danmörku, Hollandi, Írlandi og Bretlandi sem hefur leitt til þess að aðgengi að vefsíðum eins og Pirate Bay hefur verið lokað í þessum löndum. Í kjölfarið dró mikið úr ólöglegri dreifingu höfundaréttarvarins efnis.
  • Í Noregi hefur verið lagt fram frumvarp til að auðvelda lokun netaðgengis að vefsíðum sem að bersýnilega hafa þann tilgang að dreifa á ólögmætan hátt höfundaréttarvörðu efni.

Rétthafasamtök hér á landi hafa lagt megináherslu á að í stað þess að fara á eftir einstaklingum verði frekar reynt að ná til milliliðanna og að hér verði komið upp skilvirku kerfi til að loka aðgengi að vefsíðum sem bjóða upp á umfangsmikla dreifingu á verkum án heimildar rétthafa. Í tillögum þeirra er gengið út frá því að opinber stofnun taki ákvörðun um slíka lokun og að andmælaréttar verði gætt.  Framangreindar lagabreytingar um lokun netaðgengis eru tvímælalaust kostnaðarminnsta, fljótvirkasta og skilvirkasta leiðin til þess að að stemma stigu við þeim brotum sem nú eiga sér stað á netinu gegn hugverkarétthöfum

En er niðurhal ekki löglegt? Það hefur komið áður fram að niðurhal sé löglegt en þið talið í ykkar kynningarmyndböndum um að það sé ólöglegt.

Um þetta er ekki skýrt ákvæði í íslenskum höfundalögum eins og er í lögum allra annarra Norðurlandaþjóða. Hins vegar er ljóst að ef ekki liggur fyrir skýr og ótvíræð heimild frá rétthafa til notanda efnis er má hann vita að efnið sé fengið á ólögmætan hátt. Lögleg eintakagerð til einkanota er því í raun einungis lögleg ef upprunalegt eintak er fengið á löglegan hátt. Þá er ljóst að þegar notuð er tækni eins og Bittorrent til að sækja efni, er ekki einungis um niðurhal að ræða, heldur er viðkomandi notandi um leið að hlaða efninu upp og dreifa ólöglega til annarra notenda

Er almenningur hlynntur svokölluðu viðvaranakerfi?

Svarið er já. Í könnun Capacent frá mars 2011 kom fram að 60% voru meðmæltir þegar spurt var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur því að netþjónustuaðilar aðvari þá sem hala niður höfundavörðu efni af netin án þess að greiða fyrir efnið, t.d. með því að senda viðkomandi póst þar sem viðkomandi er bent á lagalegar afleiðingar niðurhalsins.

Brjóta ákvæði um viðvaranakerfi og lokun netaðgengis ekki gegn tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár?

Nei, það er misskilningur enda vega þau mannréttindaákvæði ekki þyngra en stjórnaskrárvarinn réttur til verndar eignarréttinum og þar með hugverkaréttinum. Það er ekki hægt að réttlæta höfundaréttarbrot með skírskotun til tjáningarfrelsins.Ritstuldur er brot á stjórnarskárbundum réttindum og verður ekki varinn með því að vísa til mannréttinda á borð við tjáningarfrelsi.

Hefur lokun netaðgengis vegna höfudaréttarbrota áhrif á aðgengi hjá aðilum sem ekki eiga hlut að máli eins og t.d. Google og Wikipedia?

Nei, slík lokun beinist eingöngu gegn ótvíræðri brotastarfsemi og munu ekki trufla miðlun löglegs efnis á síðum eins og Google eða Wikipedia.

Telur almennningur að listamenn eigi að fá greitt fyrir sína vinnu?

Já nær allir töldu það aðspurðir í könnun Capacent frá mars 2011

Telur almenningur að tónlistarmenn/rétthafar á tónlist og kvikmyndagerðarmenn eigi að eiga rétt á því að ákveða sjálfir hvort að verk þeirra séu seld eða gefin

Já sama niðurstaða og hér að ofan. Nær allir töldu það aðspurðir í könnun Capacent frá mars 2011.