Íslensk kvikmyndagerð á höggstokknum

Stundum gerast atburðir sem erfitt er að útskýra þótt þeir séu ekki flokkaðir sem yfirnáttúrulegir. Nú standa íslenskir kvikmyndagerðarmenn frammi fyrir atburðum sem illa gengur að útskýra með eðlilegri rökhugsun.

Það sem gerst hefur er að ráðamenn ríkisfjármála og yfirmenn Sjónvarpsins hafa ákveðið að leggja íslenska kvikmyndagerð í rúst!
Fjárfesting ríkisins í kvikmyndagerð hefur verið skorin niður um 35% á sama tíma og framlög til ýmissa annarra greina á menningarsviðinu sleppa með niðurskurð sem nemur 3 – 10%. Og stjórnandi Sjónvarpsins lýsir því yfir að RÚV kaupi ekki íslenskar kvikmyndir og dragi stórlega úr kaupum á heimildamyndum og sjónvarpsþáttum frá íslenskum framleiðendum. Eðlilegast hefði verið að hann hefði sagt af sér í kjölfar yfirlýsingarinnar, slíkar eru afleiðingar þessarar ákvörðunar.

Í hnotskurn er málið þannig að kaup RÚV á íslenskum kvikmyndum er forsenda þess að framleiðendur þeirra geta sótt fé til annarra aðila. Kvikmyndamiðstöð Íslands fjárfestir ekki í kvikmyndaverkefnum sem verða ekki sýnd opinberlega, það er bannað samkvæmt reglugerð og það sama gildir um alla sjóði og stofnanir sem fjárfesta í kvikmyndum í nálægum löndum. Með ákvörðun yfirmanna Sjónvarpsins er því verið að ákveða að íslenskir kvikmyndagerðarmenn hætti að framleiða heimildamyndir, leiknar sjónvarpsseríur og stuttmyndir. Framleiðendur bíómynda hafa tekjur af sýningum í kvikmyndahúsum en fjármagna verki einnig að hluta með sölu til RÚV. Og þar sem það hefur sýnt sig að auglýsingasala Sjónvarpsins gengur betur þegar íslenskt gæðaefni er á skjánum þá mun draga úr framleiðslu sjónvarpsauglýsinga. Og þar með dragast enn frekar saman möguleikar kvikmyndagerðarmanna til þess að vinna fyrir salti í grautinn.

Baksvið þess að Sjónvarpið hyggst fara þessa leið er að ríkisvaldið hefur lagt á nefskatt sem kemur í stað áskriftagjalda Ríkisútvarpsins. Hluti þessa skatts hefur nú verið tekinn og ráðstafað í önnur verkefni. Það má því segja að þingmenn og ráðherrar sem standa að niðurskurði framlaga til Kvikmyndamiðstöðvar bæti gráu ofan á svart með því að skerða möguleika RÚV til þess að kaupa og sýna íslensk kvikmyndaverk. En það hlýtur einnig að vekja eftirtekt og umhugsun að forráðamenn Sjónvarpsins skuli reiða til höggs gegn innlendu menningarefni og listum.

Kvikmyndagerðarmenn vissu að niðurskurður yrði óhjákvæmilegur. En þeir töldu í einfeldni sinni að sanngirni og jafnræði réði för hjá ríkisvaldinu. En niðurstaða fjárlaga og ákvörðun yfirmanna RÚV sýnir að þau sjónarmið hafa ekki verið ráðandi í þeirri aðför að kvikmyndagerð sem er nú staðreynd.

Það mun líða nokkur tími áður en Íslenskir áhorfendur munu sjá afleiðingar þess að kvikmyndagerð á Íslandi er leidd á höggstokkinn árið 2010. Ferlið verður með þeim hætti að þær myndir sem eru í framleiðslu klárast en nánast ómögulegt verður að hefjast handa við ný kvikmyndaverk. Kvikmyndasjóður hefur, eftir niðurskurðinn, 450 milljónir til úthlutunar. En eftir að RÚV hættir að kaupa verk þá getur nánast enginn kvikmyndaframleiðandi fjármagnað verk án uppáskriftar frá RÚV og því munu peningar kvikmyndasjóðs ekki nýtast til framleiðslu kvikmyndaverka.

Eftir 2 -3 ár verður framboð á íslenskum kvikmyndaverkum fátæklegt. Leiknar þáttaraðir munu eingöngu vera framleiddar og sýndar vegna öflugrar starfsemi Stöðvar 2. Stöð 2 og Skjár 1 kaupa ekki íslenskar heimildamyndir frekar en RÚV skv. ákvörðun sjónvarpsstjórans. Það getur aðeins þýtt að íslendingar sjá ekki íslenskar heimildamyndir – því þær verða ekki framleiddar. Bíómyndir verða færri og flest fólk á landsbyggðinni mun ekki sjá þær.

Fyrir hverja krónu sem ríkið hefur fjárfest í kvikmyndagerð hafa 3 – 4 krónur ratað í ríkiskassann og kvikmyndagerð dregur að töluverðan erlendan gjaldeyri. Vegna aðgerðanna gegn kvikmyndaiðnaðinum mun fjöldi kvikmyndagerðarfólks bætast á atvinnuleysiskrá, ríkið verður af skatttekjum og þarf að einnig greiða atvinnuleysisbætur. Þessa hlið málsins ætla ég ekki að ræða hér og ekki heldur menningarlegt gildi góðra kvikmynda. Það hefur sýnt sig að ráðamenn skilja ekki þau rök sem við höfum lagt fram á fjölmörgum fundum með ráðherrum og nefndum Alþingis að undanförnu.

Þjóðir sem verða fyrir áföllum verða að grípa til allra tiltækra ráða til að endurreisa samfélagið. Gildir það jafnt um áföll af völdum náttúrunnar eða aðgerða mannanna líkt og Hrunið sem Íslendingar þekkja nú af eigin raun.
Endurreisn íslenska samfélagsins er og verður erfið og ekki án átaka. Það mun svíða undan ýmsum aðgerðum sem verður að ráðast í og það munu heyrast raddir sem andmæla mörgu sem er byrjað á og ýmsu sem er framundan.
En þegar ráðamenn grípa til slíkra heimskuráða og hér sýna sig þá dregur úr trú almennings á framsýni þeirra og þekkingu.

Hjálmtýr Heiðdal
formaður Félags kvikmyndagerðarmanna