Menningin fylgir ókeypis

Um hagræn áhrif kvikmyndaframleiðslu

eftir Hjálmtý Heiðdal

Nýlega sótti ég tvo fundi þar sem fjallað var um stöðu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. Fyrri fundurinn var málþing á vegum RIFF undir skrítinni yfirskrift: Hvert fer íslensk kvikmyndagerð héðan? Sá seinni var á vegum Háskólans að Bifröst og fagfélaga kvikmyndageirans. Fyrri fundurinn var fjölsóttur og misheppnaður. Þar sat aðeins einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar og þingsins allan fundinn; Árni Páll Árnason viðskipta- efnahagsmálaráðherra. Þótt hans innlegg í umræðuna væri fróðlegt og vísaði til framtíðar þá kom það skýrt fram að kvikmyndagerð væri ekki á hans málasviði og má því segja að hann hafi verið rangur maður vitlausum stað. Fjarvera fulltrúa Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stutt viðdvöl Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra gerði útslagið, umræðan náði ekki eyrum þeirra sem hafa möguleika á að koma viðhorfum kvikmyndagerðarmanna áfram. Baltasar Kormákur stakk uppá því að menn yfirgæfu salinn og sinntu öðrum málum í stað þess að enn eina ferðina hlusta á kollegana kvarta yfir skilningslausu ríkisvaldi. Sennilega var það besta hugmynd málþingsins og í anda hinnar skrítnu yfirskriftar þess: komum okkur héðan!

 

Fimmtudaginn 29. september var kvikmyndagerðamönnum enn smalað saman, nú til þess að fræðast um nýútkomna bók um Hagræn áhrif kvikmyndalistar  eftir Ágúst Einarsson hagfræðing og prófessor á Bifröst. Eftir fyrirlestur Ágústar var ljóst að allt það sem við kvikmyndagerðarmenn og fleiri höfum sagt árum saman, um geysilega jákvæð hagræn áhrif kvikmyndagerðarinnar, er satt og sannreynt. Það sýnir sig að kvikmyndagerð er vistvæn, hún einkennist af nýsköpun, skilar hagnaði til þjóðarbúsins, styður við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni og býr yfir geysilegum vaxtarmöguleikum. Varlega áætlað fær ríkið 5 krónur til baka fyrir hverja krónur sem það fjárfestir í kvikmyndagerð. Menningin sem kvikmyndir skila þjóðinni er því hreinn virðisauki.

En þessar staðreyndir virðast ekki ná inn á skilningssvið ráðamanna – þeir virðast vera með slökkt á móttakaranum eða utan þjónustusvæðis.

 

Hvað veldur?

Afstaða ráðamanna vekja spurningar sem kvikmyndagerðarmenn verða að fá svör við, og svörin ráða miklu um framtíð atvinnugreinarinnar. Hér eru tvær spurningar sem ráðamenn verða að svara:

 

Hvers vegna eru framlög ríkisins til kvikmyndagerðar skorin meira niður en til annarra listgreina?

 

Hvers vegna gerir menntamálaráðherra nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. sem færir stöðu kvikmyndagerðarinnar gagnvart þeirri stofnun aftur um 5 ár?

 

Almennar yfirlýsingar um niðurskurð í kjölfar hrunsins skýra ekki lækkun framlaga til kvikmyndagerðarinnnar umfram aðrar listgreinar. Þess vegna verður að leita annarra svara.

Menn hafa velt fyrir sér mögulegum skýringum, nokkrar hef ég heyrt menn ræða.

1. Að heimavist Georgs Bjarnfreðarsonar í VG hafi móðgað flokkinn. (Grín?)

2. Að Mmrn. ráðuneytið einblíni á að verja störf við stórar  stofnanir (Þjóðleikhúsið etc.) og því lendi kvikmyndasjóður undir hnífnum.

3. Að starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafi komist að þeirri niðurstöðu að vöxtur kvikmyndasjóðs í kjölfar samnings ríkisins við kvikmyndagerðina 2006 hafi verið svo ríflegur að þar mætti skera heil 35% af.

Fleiri hugmyndir um svör hafa verið á kreiki: Felst svarið í því að ráðherrar Vinstri grænna, sem fara með menningar- og fjármál, burðist með fornaldarhugmyndir um kvikmyndagerð? Eru þeir hrifnari af óperuflutningi, klassískri tónlist og leiksýningum en kvikmyndum?  Hafa forsvarsmenn kvikmyndagerðarinnar verið of hógværir í vörn sinni fyrir atvinnugreinina?

(Um nýja þjónustusamninginn milli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og RÚV verður fjallað í annarri grein.)

 

Langtímaáhrif

Þótt það sé ekki ljóst hvað ræður gerðum ráðamanna, þá er niðurstaðan heiftarleg aðför að starfsgreininni sem mun veikja hana til langframa.  Það er sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir næstu árin. Aðgerðir stjórnvalda munu eyðileggja margra ára uppbyggingu framtíðar-atvinnugreinar, þekking og reynsla hverfur til annarra landa.

 

Framlag ríkisins til kvikmyndagerðar er fjárfesting og nemur um 20% af heildarveltu greinarinnar. Til viðbótar þessu sækja kvikmyndaframleiðendur fjármagn til ýmissa aðila, innanlands sem utan.

Stuðningur ríkisins við kvikmyndagerð er nauðsynleg undirstaða hennar, án þessarar undirstöðu verður nær engin kvikmyndagerð stunduð á Íslandi og litlir möguleikar til þess að sækja annað fjármagn. Minnki kvikmyndaframleiðslan mun ríkið verða af umtalsverðum tekjum, því starfsemin endurgreiðir ríkinu sitt framlag eins og áður segir. Kvikmyndagerðin, ólíkt flestum öðrum listgreinum, þarfnast ekki hárra framlaga vegna húsnæðis og yfirbyggingar s.s. Þjóðleikshúss eða Hörpu. Kvikmyndamiðstöð er lítil stofnun sem kostar um 70 milljónir að reka á ári.

 

Skýrslur og fleiri skýrslur

Það er ljóst að kvikmyndagreinin nær ekki að opna augu ráðamanna með skýrslum og greinargerðum. Þrjár skýrslur hafa verið birtar að undanförnu, „Rauða skýrslan“ sem unnin var á vegum fagfélaga kvikmyndagerðarinnar sýndi hvernig kvikmyndagerðarmenn skila ríkinu strax til baka framlagi þess og hvernig verkefnin eru m.a. fjármögnuð með sókn í sjóði erlendis. „Bláa skýrslan“, sem unnin var á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fjallaði um starfskilyrði og menningarlegt gildi kvikmyndagerðar. Í þeirri skýrslu er m.a. kafli sem útskýrir hve samstarf RÚV við kvikmyndagerðarmenn hefur gengið brösulega. Og síðust, en ekki síst, er fyrrnefnd bók Ágústar Einarssonar um hagræn áhrif kvikmyndagerðar.

Þrátt fyrir aðgang að þessum upplýsingum halda ráðamenn áfram þeirri stefnu sinni að draga úr hlut kvikmyndagerðar samanborið við ýmsar aðrar mikilvægar listgreinar. Í meðfylgjandi línuriti  er þróun fjárveitinga til Kvikmyndamiðstöðvar borin saman við fjárveitingar til Sinfóníuhljómsveitarinnar, Íslenska dansflokksins, Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins. Með samanburðinum er ekki verið að ræða upphæðir eða meta gildi hverrar greinar, hér er eingöngu verið að sýna hversu ráðamenn eru einbeittir í því að skerða hlut kvikmyndagerðarinnar.

grein_hjalmtyr_oct2011

Línuritið sýnir að allar fjárveitingar til þessarar listastarfsemi eru að aukast á árunum fyrir hrun. Í fyrstu hrunfjárlögunum  2009 er fjárfesting í kvikmyndagerð skorin harkalega niður en samaburðaraðilarnir sigla áfram, að mestu ótruflaðir af hruninu. Röksemdin um að kvikmyndagerðin hafi vaxið umfram aðrar greinar stenst því ekki.

(Tónlistarhúsið Harpa er sett inn til glöggvunar, en í því húsi er framtíðarheimili Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitarinnar).

 

Spurningunni er því enn ósvarað:

Hvers vegna eru framlög ríkisins til kvikmyndagerðar skorin meira niður en til annarra listgreina?

 

Hjálmtýr Heiðdal