Deilt um Draumalandið

Að undanförnu hafa ýmsir skrifað um heimildakvikmyndina Draumalandið eftir Þorfinn Guðanson og Andra Snæ Magnason. Skúli Thoroddsen ritar grein í Fréttablaðið og telur myndina vera ráðgátu, hann fullyrðir að „hún var hvorki heimildamynd, drama né gamanmynd“ – og hann„hallast helst að því að sé áróðursmynd, samin til að fullnægja þörfum draumóramanna um afturhvarf til þess sem var“.

Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra á vegum Framsóknarflokksins, ritar einnig grein í Fréttablaðið.  Jón segir frá því að hann var einn þeirra sem samþykktu byggingu Kárahnjúkavirkjunar og því málið skylt. Jón er, líkt og Skúli, tilbúinn að skilgreina kvikmyndina og kemst að sömu niðurstöðu. Myndin er „fyrst og fremst áróðursmynd“ skrifar Jón.

Hann saknar þess að „það er langt í frá að hún dragi fram heildarmynd af framvindu mála, á þann hátt sem ég hélt að heimildamyndir ættu að gera“.

Jón skrifar að hann „verði að viðurkenna að ég kann ekki að draga markalínur millin heimildamynda og áróðursmynda“. En hann gerir það samt sem áður.

Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, er ekki í neinum vafa um eðli myndarinnar og skrifar 3. júní: „Þetta er áróðursmynd“. Kristján telur sig vita að hvernig heimildamyndir eiga að vera: Þar er varpað ljósi á ólíkar skoðanir á mikilvægu máli, farið í saumana á því með viðtölum og rannsóknum en hlutirnir ekki tuggðir og meltir fyrir okkur.“

 

Hvað er það sem þessir heiðursmenn eru að reyna að segja okkur? Hvers vegna eru þeir með sínum hætti að reyna að skilgreina myndina þannig að hún teljist ekki vera heimildamynd?

Augljóslega er sumum þeim í nöp við boðskap myndarinnar og telja hana þjóna annarlegum tilgangi. Ég held að hjá þeim leynist ótti um að áhorfendur geti dregið aðra niðurstöðu en þeim er að skapi.  Þeir telja það lukkað hjá sér að koma henni í flokk áróðursmynda  – mynd sem sýni alranga mynd af málinu sem er til umfjöllunar að þeirra mati. Þannig telja þeir að hægt sé að draga úr áhrifamætti hennar.

Allir hafa þeir skoðanir á því hvernig heimildamyndir eigi að vera. Jón telur upp nokkur atriði sem hefðu átt að vera í myndinni að hans mati. Og hann byggir á sinni skilgreiningu hvernig heimildamyndir eiga „að sýna heildarmyndina“. Kristján telur að góð heimildamynd varpi ljósi á ólíkar skoðanir.

 

Ég hef unnið lengi við gerð heimildamynda og fullyrði að þremenningarnir eru að rugla heimildakvikmyndum saman við fræðslumyndir og sagnfræðirit. Heimildamyndir eru sjálfstætt listform, kvikmyndir sem er gerð út frá sjónarmiði höfunda.

Það sem þær eiga sameiginlegt með fræðslu- og fréttamyndum er að þær fjalla um raunverulega atburði. Þær falla ekki undir skáldað efni eins og flestar bíómyndir. Heimildamyndinni er ætlað að lýsa ástandi eins og það kemur höfundum myndarinnar fyrir sjónir og túlka það með myndmáli úr raunveruleikanum. Í heimildakvikmynd þarf ekki að vera nein „heimild“, þ.e. gömul kvikmynd, ljósmynd eða skjal.

 

Það er ekki hlutverk eða ætlun þeirra sem gerðu myndina Draumalandið að draga fram allt það sem gerðist í þessu máli. Það er ekki mögulegt að búa til heildarmynd málsins. Atburðirnir eru ekki enn til lykta leiddir og það eru uppi margar skoðanir á eðli og afleiðingum framkvæmdanna.

Í myndinni er ekki fjallað um áhrif ofurfjárfestinganna á ástand efnahagsmála eftir hrun eða ástandið eins og það er á Austfjörðum í dag. Sú vinna bíður sagnfræðinga og hagfræðinga; að draga saman niðurstöður og skrifa skýrslur.

 

Áróður er skilgreindur sem boðskapur um tiltekið málefni, ætlaður til þess að fá menn til að samþykkja skoðun áróðursmeistarans. Hann þarf í sjálfu sér ekki að vera neikvæður, það má reka áróður gegn reykingum sem geta verið lífshættulegar. Slíkur boðskapur er ekki settur fram með skírskotun til þeirra sælu sem reykingar virðast veita mörgum reykingamönnum, þvert á móti þá er áherslan á lögð á margsannaða skaðsemi reykinga.

Í heimildamyndinni Draumalandið er sett fram skoðun höfunda á umdeildu máli. Augljóslega eru þeir ekki hrifnir af því álæði sem greip stjórnvöld og þeir birta myndir sem sýna íslenska stjórnmálamenn snúast kringum erlenda álmenn, allir brosandi í austfirskri sól. Þeir liggja ekki á skoðunum sínum um eyðingu náttúru en birta jafnframt skoðanir ráðamanna og þeirra verðmætamat.

Með stimplinum „áróðursmynd“ reyna þremenningarnir að koma því inn hjá fólki að myndin sé gerð til að blekkja. Þeir nota orðið augljóslega í neikvæðri merkingu og tefla fram sínum hugmyndum um heimildamyndir til að undirstrika niðurstöðuna.

 

Með þessum línum vil ég benda þeim á að heimildamyndir eru fjölbreyttar að gerð, þær eru verk höfunda sem nýta þetta form til að tjá sínar skoðanir og tilfinningar. Heimildamyndir segja stundum sögu einstaklinga, stundum sögu heilla þjóða – það eru engin raunveruleg takmörk. Draumalandið er góð heimildamynd.

Hjálmtýr Heiðdal