Ríkissjóður hagnast af framlögum í kvikmyndasjóði

Í umræðunni um niðurskurð kvikmyndasjóða hafa komið í ljós ýmsar ranghugmyndir um fjármögnun kvikmyndaverka og framlag opinberra aðila til kvikmyndagerðar. Í nýrri könnun kvikmyndaframleiðenda sem gerð var á framleiðslukostnaði yfir 100 kvikmyndaverka sem framleidd voru á árunum 2006-2009 kemur fram ýmislegt sem varpar betra ljósi á umfang og raunframlög til kvikmyndagerðar á Íslandi.

Í könnuninni, sem nær til allra gerða af kvikmynduðum verkefnum, kemur í ljós að framleiðslukostnaður þessara verkefna er 10,5 milljarðar króna.  Framlag íslenskra kvikmyndasjóða til þessara verkefna er um 1,5 milljarður og endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar sem fellur til innanlands á vegum Iðnaðarráðuneytis eru um 900 milljónir. Samtals vega þessir tveir liðir 23% í heildarframleiðslukostnaði verkanna. Önnur innlend fjármögnun nemur 37% framleiðslukostnaðar og það sem kann að koma mörgum á óvart, er að erlent fjármagn er að baki 40% framleiðslukostnaðar þessara verka.
Þegar svo hinsvegar eru skoðaðir launaliðir framleiðslukostnaðar verkanna kemur í ljós að miðað við 27% almennt skatthlutfall og greiðslur tryggingargjalds á tímabilinu þá nemur greiðsla á launasköttum og launatengdum gjöldum um 2,4 milljörðum króna eða jafnt framlagi opinberra aðila til verkanna. Þá eru ótaldir aðrir beinir og óbeinir skattar og hliðræn áhrif kvikmyndagerðarinnar. Til að orða þetta rétt; ríkissjóður hagnast af því að leggja fé í kvikmyndasjóði! Það hlýtur á allan hátt að teljast góð fjárfesting hins opinbera sem þannig getur tryggt framboð á íslensku kvikmynda- og sjónvarpsefni sem hefur ótvírætt menningarlegt gildi og er mikil eftirspurn eftir af hálfu almennings.

Framlag íslenskra kvikmyndasjóða er gífurlega mikilvægt fyrir íslenska framleiðendur. Framlag úr kvikmyndasjóðum er skilyrði fyrir því að sækja um fjármagn í erlenda kvikmyndasjóði til finna fjármagn sem þarf til að tryggja framleiðslu verkanna. Vilyrði frá íslenskum kvikmyndasjóðum eru þannig aðgöngumiði að frekara fjármagni. Þann aðgöngumiða greiða kvikmyndaframleiðendur að fullu til baka við framleiðslu verkanna samkvæmt könnunni.

Ernst & Young gerðu árið 2008 úttekt á hagrænum áhrifum af kvikmyndagerð fyrir yfirvöld í New Mexico í Bandaríkjunum, en kvikmynduð verkefni geta fengið endurgreiddan allt að 25% framleiðslukostnaðar sem fellur til í ríkinu. Niðurstöður úttektarinnar eru mjög skýrar. Hvert starf í kvikmyndagerð skapar þrjú önnur störf. Það er engin ástæða til að ætla að málum sé öðruvísi háttað hér. Árið 2008 voru 300 ársverk í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi og því skapaði greinin um 1.200 störf hér á landi. Þegar ákveðið var að skera niður samning kvikmyndaiðnaðarins við mennta- og fjármálaráðherra frá 2006 um 35% við samþykkt fjárlaga 2010, þá var verið að skera burt yfir 400 störf hér á landi og ríkissjóður verður af samsvarandi skatttekjum.

Það er því ljóst að það verður seint kölluð skynsamleg ráðstöfun að skera niður kvikmyndasjóði eins og gert var við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Ráðherra menningarmála og þingmenn hafa nú tækifæri til að breyta rétt við gerð næstu fjárlaga og færa 400 manns störfin sín aftur.

– – –

Hilmar Sigurðsson er ritari SÍK – Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda