Fjöldauppsögn í fjárlagafrumvarpi!

Í fjárlagafrumvarpi sem nú hefur verið lagt fram fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að skera niður framlög til kvikmyndasjóðanna þriggja um 200 milljónir króna. Þetta er langhæsti niðurskurður á nokkurri menningartengdri starfsemi á fjárlögum fyrir mennta- og menningarmál. Framlag til kvikmyndasjóða fer úr 590 milljónum í 390 milljónir, samkvæmt frumvarpinu.

Árið 2006 var gert samkomulag milli menntamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð hinsvegar um árleg framlög til kvikmyndagerðar. Samkvæmt því samkomulagi, átti framlag ársins 2009 að nema 620 milljónum en hækkun milli ára var skorin um helming, eða um 4,5%. Síðan áttu framlög samkvæmt samkomulaginu að nema 700 milljónum árið 2010, en nú er komið fram frumvarp þar sem framlagið sem er í samkomulaginu hefur verið skorið niður um 44%.

Reiknað hefur verið út að verði af þessum niðurskurði, þá séu yfir 100 ársverk í hættu í iðnaðinum. Annað sem vert er að benda yfirvöldum á er að 200 milljón króna framlag úr kvikmyndasjóðum fimm faldast að meðaltali með annari fjármögnun til kvikmyndaverka. Þannig má áætla að úr verði um 1.000 milljón króna velta, sem að jafnaði myndi skila ríkissjóði um 270 milljónum í skatttekjur sé miðað við 27% skattahlutfall af veltunni.

Ekki má heldur gleyma því að góður hluti fjármögnunar til kvikmyndagerðar er erlend fjármögnun. Án stuðnings frá íslenskum kvikmyndasjóðum, er nær ómögulegt fyrir verkefni að afla stuðnings frá öðrum kvikmyndasjóðum eins og Evrópska kvikmyndasjóðnum eða Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Þessir sjóðir hafa komið með hundruðir milljóna inn í íslenska kvikmyndagerð á síðustu árum. Þá eru ótaldar allar aðrar erlendar tekjur og erlendar fjárfestingar í íslenskum kvikmyndum.

Það er einnig mjög athyglisvert að skoða hvaða áhorf íslenskt kvikmyndað efni fær, en að meðaltali er íslenskt efni með þrefalt til fjórfalt áhorf á við sambærilegt efni að öðrum uppruna en íslenskum. Um síðustu jól, voru 5 íslensk kvikmynduð verk á listanum yfir þau 10 sem mest áhorf hlutu í jólavikunni. Og þannig má lengi telja upp vinsældir íslensks kvikmyndaðs efni.

Mikið hefur verið rætt um ímynd landsins eftir hrunið. Fáir – ef nokkrir – sendifulltrúar landsins ferðast víðar og koma fyrir augu fleiri jarðarbúa en íslenskar kvikmyndir í öllum þeim formum sem þær finnast í kvikmyndahúsum, sjónvarpi og á kvikmyndahátíðum. Og fyrir utan landið sjálft, þá eru íslenskar kvikmyndir lang öflugasta landkynningin sem við eigum skv. skýrslu sem Aflvaki gerði fyrir nokkrum árum og þær eru taldar stór þáttur í því að erlendir ferðamenn velja að koma til Íslands.

Talið er að rúmlega 300 ársverk séu í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi. 34% skerðing á framlögum til kvikmyndasjóða mun færa þau vel undir 200 með einu pennastriki. Verkefni sem þegar hafa fengið vilyrði og eru í miðri fjármögnun verður sjálfhætt. Fyrirtækjum sem hafa byggt sína framtíðarsýn og stefnumörkun á samkomulaginu við menntamála- og fjármálaráðherra frá 2006 er stefnt í voða og ljóst að sum þeirra mega engan veginn við þessu í ljósi allt að 80% samdráttar í innlendri auglýsingaframleiðslu.

Íslensk kvikmyndaframleiðslufyrirtæki hafa verið að eflast á undanförnum árum og nú er svo komið að nær allir hlutar framleiðsluferils í kvikmyndum er unnin hér innanlands af innlendu starfsfólki. Með stafrænni byltingu í framleiðslu kvikmynda hefur þörfin fyrir aðkeypta og dýra erlenda þjónustu snar minnkað. Eftirvinnsla sem áður fór fram erlendis er nú að hægt að vinna að lang stærstum hluta innanlands.

Tilraunir til að laða að erlenda kvikmyndagerð á Íslandi eru líka í uppnámi. Sé ekki rekinn hér heilbrigður innlendur kvikmyndaiðnaður sem nýtir krafta fjölmenns hóps fagfólks sem greinin hefur byggt upp á síðustu árum, er þjónusta við erlendar kvikmyndatökur í miklu uppnámi. Þær reiða sig á innlent fagfólk sem erlendir kvikmyndagerðarmenn hafa lokið einróma lofi á. En hætt er við að því fólki fari mjög fljótt fækkandi verði ekki til staðar öflugur kvikmyndaiðnaður fyrir það að starfa í, árið um kring.

Það er því ljóst að verði að þessum fyrirhugaða niðurskurði, þá munu yfirvöld koma af stað stórfelldri niðursveiflu í kvikmyndaiðnaðinum sem hefur á tillidögum verið kallaður menningariðnaður tækifæranna og einn af hornsteinum í því að reisa við íslenskt efnahagslíf. Kvikmyndaiðnaðurinn er byggður upp á sprotafyrirtækjum og hefur farið úr nær engu í yfir 300 ársverka iðnað á þremur áratugum. Þessi uppbygging er nú í stórri hættu með þeirri aðför sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi.

– – –

Hilmar Sigurðsson
höfundur er ritari SÍK og kvikmyndaframleiðandi